Ótrúlegur risasigur Gróttu gegn Selfossi

Karólína Bæhrenz Lárudóttir skoraði sex mörk fyrir ógnarsterkt lið Gróttu.
Karólína Bæhrenz Lárudóttir skoraði sex mörk fyrir ógnarsterkt lið Gróttu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gróttukonur unnu ótrúlegan risasigur á Selfossi í kvöld í síðasta leik 20. umferðar Olís-deildar kvenna en lokatölur urðu 21 marks sigur Gróttukvenna, 31:10 en leikið var á Seltjarnarnesi.

Leikurinn kláraðist strax í fyrri hálfleik og virðast Selfyssingar hafa kastað inn hvíta handklæðinu strax, en þrettán marka munur var á liðunum í hálfleik, 18:5.

Markaskorun dreifðist jafnt og þétt á Gróttuliðið en markahæst var Karólína Bæhrenz Lárusdóttir með sex mörk. Gróttukonur, sem urðu bikarmeistarar í fyrsta skipti í sögu félagsins um síðustu helgi senda með þessum sigri skýr skilaboð um að liðið ætli að landa öllum titlum sem í boði eru á leiktíðinni.

Liðið er í toppsætinu með 34 stig, tveimur meira en Stjarnan í 2. sætinu. Selfyssingar hafa 15 stig í 8. sætinu.

Aðeins þrír leikmenn af 14 komust ekki á markaskoraralista Gróttu, þar af markverðirnir tveir.

Aftur á móti komust aðeins þrír leikmenn Selfoss á listann en Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði helming marka liðsins, fimm talsins en Carmen Palamariu skoraði fjögur, sem gerir samtals 90% marka Selfossi.

Mörk Gróttu: Laufey Ásta Guðmundsdóttir 4, Sunna María Einarsdóttir 1, Eva Margrét Kristinsdóttir 2, Arndís María Erlingsdóttir 4, Anna Katrín Stefánsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 3, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 6, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir 2, Guðný Hjaltadóttir 2, Lovísa Thompson 3.

Mörk Selfoss: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 5, Carmen Palamariu 4, Margrét Katrír Jónsdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert