Enginn í fýlu hjá Ágústi

Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í Handbolta
Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í Handbolta Ernir Eyjólfsson

Það var enginn í fýlu eftir 25:21 tap íslenska kvennalandslandsliðsins í handknattleik gegn Sviss í öðrum vináttulandsleik þjóðanna af þremur. „Nei, ekkert svoleiðis,“ sagði Ágúst Jóhannsson landsliðsþjálfari.

Íslenska liðið er í æfingaferð í Sviss og undirbýr sig fyrir komandi umspilsleiki í júní gegn Svartfjallalandi fyrir heimsmeistaramótið. Leikurinn í dag var nýttur til að gefa nýjum leikmönnum tækifæri.

Ágúst hvíldi tvo lykilleikmenn liðsins, þær Kareni Knútsdóttir og Rut Jónsdóttur í dag en íslenska liðið mætir Sviss aftur á morgun og þá verða þær báðar væntanlega með.

Við notuðum þennan leik til að leyfa leikmönnum að spila sína fyrstu alvöru mínútur með landsliði. Hrafnhildur Hanna (Þrastardóttir) spilaði allan leikinn og Helena Örvarsdóttir spilaði meirihlutann í leiknum. Elín Jóna (Þor­steins­dótt­ir) var á leikskýrslu í fyrsta skiptið. Við notuðum þennan leik til að dreifa álaginu og leyfa yngri leikmönnum að spila,“ sagði Ágúst og komust nýliðarnir vel frá sínu.

„Þær komust vel frá þessu. Hrafnhildur Hanna skoraði fjögur góð mörk og spilaði fyrri hálfleik virkilega vel og Helena (Rut Örvars­dótt­ir) stóð sig mjög vel, sérstaklega varnarlega,“ sagði Ágúst. 

Fóru illa með mikið af góðum fær­um.

Það voru hins vegar vonbrigði að vinna ekki leikinn en hann var að sögn Ágústs upphaflega hugsaður sem meiri tilraun heldur en leikurinn í gær sem vannst og þriðji og síðasti vináttulandsleikurinn á morgun.

„Við vildum auðvitað vinna og reyndum það, en leikurinn í gær og leikurinn á morgun eru opinberir landsleikir. Þetta var meiri æfingaleikur. Við lögðum við meiri áherslu á leikinn í gær og svo á morgun. En við komum á fullum krafti og reyndum að ná í eins góð úrslit og við gátum. Fyrirfram var hugmyndin að hægt og rólega auka breiddina í liðinu og leyfa yngri leikmönnum að prófa sig áfram. Sviss spilaði á sínu besta liði allan tímann en heilt yfir var margt gott í leik okkar,“ sagði Ágúst.

Íslenska liðið fór að illa með með mörg dauðafæri í fyrsta leiknum og það sama var uppi á teningnum í dag.

„Sama og í gær þá fórum við illa með mikið af góðum færum. Þær spila mjög framarlega vörn og það er erfitt að eiga við þær. Við vorum í smá barningi síðasta korterið að vinna þær maður á mann. Þegar við náðum að gera það, og skapa okkur færi  þá fórum við illa með þau, og það var dýrt,“ sagði Ágúst.

Ísland leikur við Svartfjallaland í umspilsleikjum um laust sæti á HM og segir Ágúst mikinn mun vera á styrkleika liðanna.

„Það er stór munur á Sviss og Svartfjallalandi, það er ljóst en Sviss hefur á að skipa fínu liði, leikmenn sem spila í Noregi og Þýskalandi og í bestu liðunum hérna í Sviss. Þær hafa fínt lið en við erum sterkari og sýndum það í gær og náum vonandi að sýna betri leik á morgun en auðvitað munur miklu að Karen og Rut séu ekki með, okkar lykilmenn,“ sagði Ágúst.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk í leiknum í dag.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk í leiknum í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert