Grótta með úrvalsdeildarsætið í höndunum

Viggó Kristjánsson skoraði 13 mörk fyrir Gróttu í kvöld og …
Viggó Kristjánsson skoraði 13 mörk fyrir Gróttu í kvöld og Brynjar Loftsson skoraði 12 stig fyrir Fjölni. mbl.is/Golli

Grótta er með úrvalsdeildarsætið í höndunum eftir sigur á Selfyssingum, 26:20, í 1. deild karla í handknattleik á Selfossi í kvöld.

Staðan var 13:13 í hálfleik en Seltirningar sigu framúr í seinni hálfleilknum og tryggðu sér sannfærandi sigur.

Þar með er Grótta með þriggja stiga forskot á Víking þegar tveimur umferðum er ólokið. Grótta fer aftur austur á Selfoss og spilar þar við Míluna næsta föstudagskvöld og með sigri þar er úrvalsdeildarsætið í höfn.

Víkingur vann KR, 25:22, í Vesturbænum í kvöld en þarf að treysta á að Grótta misstígi sig gegn Mílunni. Grótta og Víkingur mætast síðan í lokaumferð deildarinnar.

Viggó Kristjánsson var í miklum ham og skoraði 13 mörk fyrir Gróttu en Þorgeir Bjarki Davíðsson og Aron Valur Jóhannsson gerðu 3 mörk hvor. Alexander  Már Egan skoraði 6 mörk fyrir Selfyssinga.

Fjölnir vann ÍH auðveldlega í Grafarvogi, 33:16, eftir að staðan var 16:8 í hálfleik. Brynjar Loftsson skoraði 12 mörk fyrir Fjölni og Björgvin Páll Rúnarsson 8 en Guðni Siemsen Guðmundsson skoraði 5 mörk fyrir ÍH.

Í KR-heimilinu skoraði Arnar Freyr Theodórsson 7 mörk fyrir Víking, Sigurður Eggertsson og Jóhann Reynir Gunnlaugsson 5 mörk hvor. Fyrir KR skoruðu Sigurbjörn Markússon og Finnur Jónsson 6 mörk hvor.

Þegar tveimur umferðum er ólokið er Grótta með 43 stig, Víkingur 40, Fjölnir 27, Selfoss 27, KR 21, Hamrarnir 19, Þróttur 9 stig, Mílan 8 og ÍH 4.

Víkingar fara væntanlega í umspilið ásamt Fjölni og Selfossi. Fjórða lið verður svo KR eða Hamrarnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert