Anton markahæstur í útisigri

Anton Rúnarsson.
Anton Rúnarsson. mbl.is/Eggert

Anton Rúnarsson var markahæsti leikmaður Emsdetten í kvöld þegar liðið vann góðan útisigur á Dormagen, 31:25, í þýsku 2. deildinni í handknattleik.

Anton skoraði 7 mörk fyrir Emsdetten sem er nú komið á lygnan sjó í 11. sæti af 20 liðum í deildinni með 29 stig. Ernir Hrafn Arnarson skoraði 4 marka liðsins en Oddur Gretarsson náði ekki að skora og Ólafur Bjarki Ragnarsson lék ekki með að þessu sinni.

Íslendingaliðið Aue, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, vann Saarlouis, 25:24, á útivelli og liðið er nú í 9. sæti deildarinnar með 32 stig. Hörður Fannar Sigþórsson skoraði 3 mörk fyrir Aue, Árni Þór Sigtryggsson 2, Bjarki Már Gunnarsson 2 og Sigtryggur Rúnarsson eitt. Sveinbjörn Pétursson varði mark liðsins.

Fannar Þór Friðgeirsson skoraði 3 mörk fyrir Grosswallstadt sem  gerði jafntefli, 23:23, við Hamm á útivelli. Grosswallstadt er með 37 stig í sjötta sæti deildarinnar og er í baráttu um að komast upp í efstu deild. Hamm er einu stigi og sæti ofar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert