Vorum einfaldlega slappir

Magnús Stefánsson.
Magnús Stefánsson. mbl.is/Golli

Eyjamenn voru snöggir að forða sér frá Akureyri eftir að hafa tapað fyrir norðanmönnum í Olísdeild karla í handknattleik í dag, 25:19.

Blaðamaður rétt náði í skottið á Magnúsi Stefánssyni á meðan hann klæddi sig í fötin. Magnús komst ekki einu sinni í sturtu þar sem Eyjamenn voru að missa af flugi. Fyrirliðinn var ekkert of hress.

„Við vorum einfaldlega slappir í þessum leik. Ég er ekki alveg að átta mig á þessu svona í fljótu bragði en við leggjumst bara yfir okkar leik og reynum að bæta okkur. Við erum ekki á þeim stalli sem við viljum vera á og þurfum að trekkja okkur í gang. Við erum tvöfaldir meistarar en förum ekki langt á því. Það er eins og menn bíði bara eftir að allt hrökkvi í gang en það kann ekki góðri lukku að stýra. Ég er alls ekki sáttur með frammistöðuna í síðustu leikjum og við þurfum að fara í smá sjálfsskoðun“ sagði Magnús að lokum og rauk upp í rútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert