Úrslitaleikur Hamranna og KR um umspilið

Hamrarnir mæta KR í úrslitaleik um sæti í umspili.
Hamrarnir mæta KR í úrslitaleik um sæti í umspili. Thorir O. Tryggvason.

Hamrarnir og KR mætast í 1. deild karla í handknattleik næstkomandi föstudag, og mun leikurinn skera úr um hvort liðið hreppir fimmta sæti deildarinnar og síðasta sætið inn í umspil fyrir Olís-deildina. Þetta var ljóst eftir að Hamrarnir unnu Míluna, 25:17, norðan heiða í dag.

Hamrarnir voru með tveggja marka forystu, 10:8, í hálfleik en gáfu í eftir hlé og uppskáru að lokum átta marka sigur. Kristján Sigurbjörnsson var þeirra markahæstur með níu mörk en hjá Mílunni skoraði Örn Þrastarson átta, sem var einmitt fjöldi leikmanna á skýrslu hjá þeim í dag.

Hamrarnir eru sem stendur í fimmta sætinu með jafn mörg stig og KR en með betri innbyrðir viðureignir. Hamrarnir eiga einn leik eftir en KR tvo, en vinni Hamrarnir á föstudag er fimmta sætið þeirra.

Mörk Hamranna: Kristján Sigurbjörnsson 9, Einar Jónsson 3, Benedikt Linberg 3, Elfar Halldórsson 2, Patrekur Stefánsson 2, Róbert Sigurðarson 2, Kristinn Ingólfsson 1, Valþór Guðrúnarson 1, Valdimar Þengilsson 1, Aron Gunnlaugsson 1.
Mörk Mílunnar: Örn Þrastarson 8, Atli Kristinsson 6, Árni Felix Gíslason 1, Eyþór Jónsson 1, Einar Sindri Ólafsson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert