Mætast Kiel og PSG?

Alfreð Gíslason þjálfar Kiel.
Alfreð Gíslason þjálfar Kiel. AFP

Í dag verður dregið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Þrjú lið með íslenskum handknattleiksmönnum og þjálfara eru eftir í pottinum og möguleiki er að slag Íslendinga í 8-liða úrslitum.

Kiel, liðið sem Alfreð Gíslason þjálfar og Aron Pálmarsson leikur með, er í efri styrkleikaflokki ásamt Barcelona sem Guðjón Valur Sigurðsson er með. Einnig eru Vészprém frá Ungverjalandi og  pólsku meistararnir í Vive Kielce í þeim hópi. 

Róbert Gunnarsson og samherjar í PSG eru í neðri styrkleikaflokknum og geta því dregist gegn Kiel eða Barcelona. Auk PSG eru HC Zagreb, Vardar Skopje og Pick Szeged frá Ungverjalandi í neðri styrkleikaflokknum.

Eftir að Kiel sló Flensburg út í 16-liða úrslitum á sunnudaginn sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, að hann reiknaði með alveg eins með að dragast gegn PSG í 8-liða úrslitum. Kiel færi oft erfiðu leiðina í keppninni.

Fyrri leikir 8-liða úrslitanna fara fram 8-. 12. apríl og seinni leikirnir 15. - 19. apríl.

Undanúrslitaleikirnir verða háðir í Köln laugardaginn 30. maí og úrslitaleikurinn daginn eftir á sama stað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert