Kiel staðfestir komu Ege

Steinar Ege.
Steinar Ege. AP

Þýska handknattleiksliðið Kiel hefur staðfest að norski markvörðurinn Steinar Ege hafi ákveðið að draga fram keppnisskóna á nýjan leik og vera Kiel-liðinu til halds og trausts meðan Andreas Palicka, einn þriggja markvarðar liðsins, jafni sig af meiðslum.

Johan Sjöstrand er og verður áfram aðalmarkvörður liðsins út keppnistímabilið.  Kim Sonne, ungur danskur markvörður, verður á vaktinni með Sjöstrand ásamt Ege sem eðlilega er ekki í mikilli leikæfingu.

Palicka meiddist fyrir rúmri viku í kappleik. Reiknað er með að hann verði a.m.k. þrjár vikur frá keppni. Hugsanlega getur orðið lengur frá. Kiel á marga erfiða leiki fyrir höndum, jafnt í þýsku 1. deildinni og í Meistaradeildinni. Þar af leiðandi telja forsvarsmenn liðsins nauðsynlegt að hafa meiri reynslu í markvarðarteymi þess. Hugsanlegt er að Ege verði í herbúðum Kiel út apríl og lengur ef þurfa þykir. 

Ege hefur ekki leikið handknattleiks í hálft þriðja ár. Hann er 42 ára gamall og lék um þriggja ára skeið með Kiel, frá 1999 til 2002, og varð í tvígang þýskur meistari. Ege lék með fleiri liðum í Þýskalandi, einnig á Spáni og í Danmörku auk heimalandsins. Ege á að baki 262 landsleiki fyrir Noreg og er nú markvarðarþjálfari karlalandsliðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert