Patrekur hættir með Hauka í vor

Patrekur Jóhannesson mun hætta sem þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson mun hætta sem þjálfari Hauka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka í Olís-deild karla í handknattleik, mun láta af störfum hjá félaginu í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Patrekur er samhliða starfi sínu hjá Haukum landsliðsþjálfari Austurríkis og mun hann einbeita sér að fullu að því eins og lesa má um í meðfylgjandi tilkynningu.

Patrekur Jóhannesson hefur nýtt sér ákvæði í samningi sínum við handknattleiksdeild Hauka og mun því ljúka störfum sem þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu að loknu yfirstandandi tímabili.

Verkefni Patreks hjá landsliði Austurríkis munu færast í aukana í kjölfar nýs fimm ára samnings hans við austurríska handknattleikssambandið sem  tekur gildi í haust. Þau verkefni munu krefjast enn frekari viðveru utan landsteinanna á komandi misserum. Af þeim sökum verður Patreki ekki kleift að sinna þjálfun meistaraflokks Hauka samfara landsliðsþjálfuninni.

Handknattleiksdeild Hauka hefur verið verið afar ánægð með störf Patreks sem hafa einkennst af mikilli fagmennsku og heilindum. Framundan eru spennandi vikur þar sem úrslit munu ráðast í Íslandsmótinu og mun Patrekur að sjálfsögðu stjórna liði Hauka af fullum krafti á þeirri vegferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert