Vonum að Fram misstígi sig gegn FH

Hilmar Pálsson, línumaður Stjörnunnar.
Hilmar Pálsson, línumaður Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

,,Ég er bara gríðarlega ánægður með þetta og auðvitað hjálpar þetta þeim markmiðum sem við settum niður fyrir mót," sagði Hilmar Pálsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir 26:30 sigur á HK í Digranesinu í Olís-deild karla í kvöld. Hilmar átti stóran þátt í sigrinum en hann gerði fimm mörk.

Leikurinn var afar fjörugur í Digranesinu en Stjörnumenn höfðu völd á leiknum í fyrri hálfleiknum áður en HK-ingar söxuðu á forskotið og jöfnuðu í byrjun þess síðari. Gestirnir kláruðu þó dæmið þegar nokkrar mínútur voru eftir og fjögurra marka sigur staðreynd.

Eins og áður segir þá komust HK-ingar inn í leikinn í byrjun síðari hálfleiks en Hilmar segir að liðið hafi oft áður stressað sig á þessum tímapunkti leiks í vetur.

,,Við höfum verið að stressa okkur og missa forskotið á þessum tímapunkti í vetur en við þurfum að vera yfirvegaðri og rólegri á boltanum."

Stjarnan setur ágætis pressu á Fram með þessum sigri en liðin eru nú jöfn að stigum. Fram mætir FH á morgun í leik sem gæti skipt miklu máli í fallbaráttunni.

,,Við viljum hafa þetta svona og versta falli úrslitaleik í síðustu umferð. Við vonum að Fram misstígi sig og að FH-ingar geri okkur smá greiða," sagði Hilmar ennfremur.

Næsti leikur Stjörnunnar er þó gegn toppliði Vals en Stjarnan hefur engu að tapa samkvæmt Hilmari.

,,Við erum alltaf  minna liðið og höfum ekki verið að tapa stórt. Við höfum í raun engu að tapa og getum alveg strítt þeim," sagði Hilmar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert