Framarar halda sínu striki

Ólafur Ægir Ólafsson með sendingu út í hornið í leiknum …
Ólafur Ægir Ólafsson með sendingu út í hornið í leiknum gegn FH í kvöld. mbl.is/Kristinn

Fram vann í kvöld sinn þriðja leik í röð í Olís-deild karla er þeir lögðu FH-inga, 29:24, í Kaplakrika. Um leið steig Fram-liðið mikilvægt skref í átt til þess að halda sæti sínu í deildinni. Fram hefur nú tveggja stiga forskot í áttunda sæti deildarinnar á Stjörnuna sem situr í níunda sæti.

Fram var marki yfir í hálfleik, 13:12, gegn vængbrotnu liði FH-inga sem náði sér aldrei á strik enda eru talsverð afföll í leikmannahópnum. Ásbjörn Friðriksson gat til að mynda aðeins leikið með á upphafsmínútunum vegna bakmeiðsla en fleiri leikmenn hafa verið fjarri góðu gamni um lengri eða skemmri tíma.

Leikurinn var ekki vel leikinn. Talsvert var um mistök á báða bóga og alltof margar sendingar biluðu. Baráttan var allsráðandi, einkum hjá Fram-liðinu sem hefur eflst við hverja raun og virðist ekki ætla að gefa sæti sitt eftir í deildinni.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

FH 24:29 Fram opna loka
60. mín. Þorri Gunnarsson (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert