Afturelding er utandeildarmeistari

Utandeildarmeistarar Aftureldingar með sigurlaun sína eftir sigurinn á FH í …
Utandeildarmeistarar Aftureldingar með sigurlaun sína eftir sigurinn á FH í dag í úrslitaleik. Ljósmynd/Kristín

Afturelding varð í dag meistari í utandeild kvenna í handknattleik. Mosfellingar unnu FH-inga, 23:15 í úrslitaleik í N1-höllinni að Varmá í Mosfellsbæ eftir að hafa verið með sex marka forskot í hálfleik. 15:9. 

Góður varnarleikur lagði fyrst og fremst grunninn að sigri Aftureldingar í leiknum sem FH-liðinu, sem hafði m.a. Þóru B. Helgadóttur, fyrrverandi landsliðsmarkvörð innanborðs.

Í undanúrslitum í gær vann Afturelding lið Stjörnunnar með tveggja marka mun, 26:24, á sama tíma og FH lagði Goldís, 29:27.

Dagný Birgisdóttir skoraði 10 mörk fyrir Aftureldingu og Hekla Daðadóttir var næst með fimm mörk.  Hind Hannesdóttir var markahæst hjá FH með átta mörk.

 Afturelding var með lið í Olís-deildinni í fyrra og hitteðfyrra en ákveðið var á síðasta sumri að rifa aðeins seglin og taka þátt í utandeildinni. Þjálfari Aftureldingar er Davíð Svansson, markvörður meistaraflokksliðs karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert