Hættir Einar hjá Molde?

Einar Jónsson þjálfari Molde.
Einar Jónsson þjálfari Molde. mbl.is/Eva Björk

Flest bendir til þess að Einar Jónsson hætti þjálfun norska kvennaliðsins Molde að loknu þessu keppnistímabili. Einar hefur þjálfað liðið síðustu tvö árin og á þeim tíma hefur það unnið sig upp um tvær deildir. Á dögunum vann Molde sér sæti í norsku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu sinni.

Þar af leiðandi koma þessar fregnir á óvart.

Á vef blaðsins Romsdals Budstikke segir að Einar hafi 1. febrúar sl. nýtt sér ákvæði í samningi sínum við félagið um að segja honum upp. Forsvarsmenn Molde  hafi síðan rætt við Einar um möguleika á nýjum samningi en einnig sett sig í samband við fleiri þjálfara. Viðræður á milli Einars og forsvarsmanna Molde hafa enn ekki borið árangur en Einar hefur m.a. óskað eftir launahækkun. Molde-menn hafa ekki gert Einari móttilboð.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru hverfandi líkur á að Einar verði áfram hjá Molde þrátt fyrir að hafa náð glæsilegum árangri með liðið á síðustu tveimur árum. Reyndar er  hreinlega óvíst hvað tekur við hjá Einari eftir þetta keppnistímabil en hann stýrði Fram til sigurs Íslandsmeistaramótinu í handknattleik karla vorið 2013 áður en hann flutti til Noregs ásamt fjölskyldu sinni.

Einar segir í samtali við Romsdals Budstikke að hann hafi ekki rætt við önnur lið um þjálfun, enn sem komið er þar sem það hafi verið sinn fyrsti kostur að halda áfram hjá Molde.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert