„Sverre er að verða fimmtugur“

Bjarki Símonar varði átta skot í kvöld.
Bjarki Símonar varði átta skot í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Aðeins einn leikmaður í liði Akureyrar getur verið nokkuð sáttur með sína frammistöðu eftir að FH-ingar höfðu kjöldregið Akureyringa í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 19:27. Bjarki Símonarson heitir hann. Kom Bjarki inn í mark Akureyringa í slæmri stöðu og með góðri markvörslu kom hann sínu liði aftur inn í leikinn. Dugði það skammt því leikur Akureyringa hrundi í síðari hálfleiknum.

Bjarki var nú ekki beint hress í leikslok en það var stutt í spaugið. ,,Það skiptir mig engu máli þó að ég hafi varið þessi skot. Við töpuðum leiknum og þótt ég hefði varið 100 skot í tapi þá hefði ég líka verið fúll. Á þessum kafla small vörnin og mér gekk vel. Sóknarleikurinn varð líka beittari og við söxuðum á þá. Síðan var eitthvað allsherjar andleysi sem fylgdi okkur inn í seinni hálfleikinn.“

Telur þú að það hafi haft áhrif á leikmenn að liðið spilaði síðast á laugardag og menn hafi ekki náð að hvílast nóg, sérstaklega í ljósi þess að það eru nokkrir eldri leikmenn í hópnum?

,,Nei alls ekki. Það er engin afsökun. Öll liðin lenda í þessu einhvern tímann á tímabilinu og takast bara á við það. Sverre er að verða fimmtugur en samt berst hann alltaf eins og ljón og á nóg á tanknum. Þetta var bara ákveðin prófraun. Okkur hafði gengið vel í síðustu leikjum en fórum alveg með þetta í kvöld. Það er bara næsti leikur. Við ætlum að vinna hann“ sagði Bjarki Sím að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert