Fimm ára fangelsi?

Nikola Karabatic á leið í réttarsal ásamt lögfræðingi sínum.
Nikola Karabatic á leið í réttarsal ásamt lögfræðingi sínum. AFP

Formlegt ákæra hefur verið lögð fram á hendur Frakkans Nikola Karabatic, eins besta handboltamanns heims, vegna meintrar þátttöku í því að hagræða úrslitum í leik Montpellier og Cesson í lokaumferð frönsku deildakeppninnar vorið 2012. Hann er nú samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá spænska meistaraliðinu Barcelona.

Alls eru fimmtán einstaklingar kærðir vegna málsins en Montpellier tapaði leiknum mjög óvænt. Liðið var orðið franskur meistari en Cesson var í harðri fallbaráttu. Í ljós kom að óeðlilega háum upphæðum hafði verið veðjað á leikinn.

 Luka Karabatic, bróðir Nikola sem einnig er franskur landsliðsmaður, er í hópi hinna ákærðu. Alls eru sjö leikmenn þar á meðal en þeir voru allir úrskurðaðir í sex leikja bann á sínum tíma. Samkvæmt fréttastofunni AP er talið að þeir sem verði fundnir sekir verði dæmdir í allt að fimm ára fangelsi.

„Hálftími í fangelsi væri of þungur dómur," sagði Michael Corbier, lögfræðingur Karabatic, við AP.  „Við kröfðumst þess fyrst að málinu yrði vísað frá en nú er krafan sú að hann sé saklaus af öllum ákærum. Samkvæmt reglum gæti orðið um að ræða fimm ára fangelsi og sektir, en bara það að vera fundinn sekur og þurfa að sitja hálftíma í fangelsi væri of mikið," sagði Corbier.

Karabatic, sem er þrítugur, hefur þrisvar orðið heimsmeistari með Frökkum, síðast í janúar á þessu ári, og tvisvar unnið ólympíugull með franska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert