Hrafnhildur Ósk fer til Eyja

Hrafnhildur Skúladóttir í leik á móti ÍBV.
Hrafnhildur Skúladóttir í leik á móti ÍBV. mbl.is/Ómar

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins, tekur við þjálfun kvennaliðs ÍBV að lokinni yfirstandandi leiktíð. Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildum. Líklegt er að gengið verði opinberlega frá ráðningu Hrafnhildar Óskar í dag eða á morgun.

Hrafnhildur Ósk tekur við af Jóni Gunnlaugi Viggóssyni sem ákvað fyrir nokkru að hætta þjálfun Eyjaliðsins við lok leiktíðar. ÍBV er enn með í úrslitakeppninni og mætir deildarmeisturum Gróttu í undanúrslitum Íslandsmótsins þegar úrslitakeppnin hefst í næstu viku. Jón Gunnlaugur lýkur því verkefni áður en hann kveður ÍBV-liðið eftir tveggja ára starf.

Hrafnhildur Ósk þreytir þar með frumraun sína í þjálfun í meistaraflokki með því að stýra liði ÍBV, sem hefur verið í fremstu röð kvennaliða hér á landi síðustu árin. Hún hefur áður þjálfað yngri flokka stúlkna.

Hrafnhildur Ósk er leikja- og markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi með 170 landsleiki og 630 mörk. Hún lék sinn síðasta landsleik gegn Noregi á Selfossi í júní 2013 en alls spannaði ferill hennar með landsliðinu nærri 20 ár.

Hrafnhildur Ósk lagði keppnisskóna á hilluna fyrir ári eftir að hafa orðið bæði bikarmeistari og Íslandsmeistari með Val en hún lék síðustu sjö árin með Hlíðarendaliðinu. Hrafnhildur lék árum saman í Danmörku með SK Aarhus, Hadsten og Tvis Holstebro. Einnig var hún leikmaður um skeið í Noregi. Þá lék Hrafnhildur Ósk með ÍR og FH á sínum yngri árum.

ÍBV hafnaði í fjórða sæti Olís-deildarinnar á dögunum og er sem fyrr segir komið í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn. ÍBV tapaði í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins fyrir Gróttu.

Eftir því sem næst verður komist er reiknað með að töluverðar breytingar verði á leikmannahópi ÍBV fyrir næstu leiktíð. Heyrst hefur að allt að sjö leikmenn núverandi liðs hafi hug á að róa á önnur mið fyrir næstu handknattleiksvertíð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert