Frábær leikur hjá strákunum

„Þetta var frábær leikur hjá strákunum. Ég verð að hrósa þeim. Það var hreinlega frábært að sjá þá að þessu sinni," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, eftir átta marka sigur á Val, 32:24, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í kvöld en leikið var í Vodafonehöllinni. 

„Það var alveg sama hvar var litið á leik liðsins, jafn í vörn sem sókn, gegn deildarmeisturunum á þeirra heimavelli. Það er jákvætt fyrsta skref," sagði Patrekur og undirstrikaði að um væri að ræða fyrsta leik í úrslitakeppninni þar sem vinna verður þrjá leiki til þess að komast í næstu umferð. „Við verðum bara að vinna áfram í okkar málum. Vinna úr þessum leik og mæta með virðingu fyrir andstæðingnum en fyrst og fremst horfa á okkur sjálfa," sagði Patrekur ennfremur og bætir við að margt af því sem lagt var upp með fyrir leikinn hafi gengið upp þegar á hólminn var komið. 

„Valsarar eru frábærir og hafa leikið góðan handbolta í vetur," segir Patrekur og undirstrikar að hann viti að Valsmenn mæti öflugri til leiks á laugardaginn þegar liðin mætast á nýjan leik á heimavelli Hauka.

„Það mikilvægt að menn finni að það er gaman þegar vel og af hverju það er gaman," segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka.

Nánar er rætt við Patrek á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert