Þetta verður gott samstarf

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. mbl.is/Eva Björk

„Óli er svo auðvitað með mikla reynslu, er mikill liðsmaður og við höfum margar svipaðar pælingar svo þetta verður gott samstarf,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í samtali við mbl.is.

Í dag var tilkynnt var að Ólafur Stefánsson, einn leikreyndasti leikmaður Íslands, sé kominn í þjálfarateymi landsliðsins og fylgir því í leikina tvo gegn Serbíu í riðlakeppni EM 2016 nú um mánaðarmótin. Ólafur þjálfaði meist­ara­flokk karla hjá Val á síðasta keppn­is­tíma­bili og í upp­hafi þessa en tók sér þá frí frá þjálf­un til að sinna öðrum verk­efn­um. Hann tók svo fram skóna í stuttan tíma fyrir skömmu og spilaði tvo Evrópuleiki með Kolding í Danmörku sem Aron þjálfar.

„Þetta hefur verið í undirbúningi í þónokkurn tíma og við ræddum líka töluvert um þetta þegar hann kom hingað út til mín til Kolding. Þetta er spennandi, sérstaklega því hann mun einnig koma að afreksverkefni sem við erum að koma af stað. Til að koma honum aftur inn í hlutina hjá A-liðnu þá verður hann með okkur í þessu verkefni gegn Serbíu og mun hjálpa okkur þar. Síðan getur hann tengt það áfram í afrekshópinn,“ sagði Aron, en Ólafur kemur inn í þjálfarateymið í stað Erlings Richardssonar.

Ásamt Ólafi mun Gunnar Magnússon halda utan um afrekshópinn ásamt fleiri þjálfurum, en tilgangurinn er að brúa bilið á milli A-landsliðsins, Olís-deildarinnar hér heima og yngri landsliða.

Lítill tími til undirbúnings

Við sama tilefni tilkynnti Aron landsliðshópinn fyrir leikina gegn Serbíu. Þeir Egill Magnússon, Stjörnunni, og Pétur Júníusson, Aftureldingu, koma þar nýjir inn í hópinn.

„Við viljum senda viss skilaboð og erum að reyna að efla uppbygginguna á okkar yngri leikmönnum. Þetta eru tveir stórir strákar sem eiga framtíðina fyrir sér og við vildum gefa þeim þefinn af landsliðinu,“ sagði Aron.

Landsliðshópurinn er að mestu skipaður leikmönnum sem tóku þátt á HM í Katar í janúarmánuði og má nefna að Sverre Jakobsson er í hópnum, en hann taldi sjálfur líklegt að HM í Katar hefði verið hans síðasta landsliðsverkefni.  Sigurbergur Sveinsson dettur þó út en inn koma þeir Ólafur Guðmundsson og Rúnar Kárason sem var í æfingahópnum fyrir HM. Kjarninn er því sá sami og segir Aron það mikilvægt þar sem lítill tími er til undirbúnings.

„Staðan er þannig að við höfum gíðarlega stuttan tíma, einhverja tvo daga til þess að undirbúa liðið og það er ekki hægt að breyta miklu á tveimur dögum. Það er auðvitað slæmt, en við erum staðráðnir í að standa okkur í þessum tveimur leikjum gegn Serbíu og það er sérstaklega mikilvægt að gera vel á heimavelli,“ sagði Aron Kristjánsson við mbl.is í dag.

Leikirnir við Serbíu:

Miðvikudagur 29. apríl - kl.19.30 í Laugardalshöll
Sunnudaginn 3. maí - kl.17.30 í Nis, Serbíu

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. mbl.is/Kristinn
Pétur Júníusson.
Pétur Júníusson. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert