Valsskútan strandaði á Morkunas

Haukar eru komnir í kjörstöðu með tvo vinninga gegn engum Valsmanna í undanúrslitarimmu liðanna í Olís-deild karla í handknattleik eftir tveggja marka sigur, 21:19, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag. Haukar geta öðrum fremur þakkað markverði sínum, Giedrius Morkunas sigurinn. Hann var kletturinn sem Valsskútan strandaði á að þessu sinni. Morkunas varði á þriðja tug skota.

Næsti leikur liðanna verður á heimavelli Vals á þriðjudagskvöldið. 

Valsmenn mættu afar grimmir til leiks eftir útreiðina sem þeir fengu í fyrsta leiknum á fimmtudaginn. Þess sáust merki víða í leiknum að leikmenn voru nokkuð æstir og tvígang munaði litlu í fyrri hálfleik að það kastaðist alvarlega í kekki milli leikmanna liðanna.

Aukin grimmd Valsmanna skilaði sér einnig í mun hreyfanlegri og betri varnarleik en á fimmtudagskvöldið. Haukar náðu ekki sama takti í sóknarleik sinn í fyrri hálfleik og gerði sig seka um alltof mörg einföld mistök s.s. slakar sendingar, ruðning, skref og þessháttar. Valssóknin gekk betur upp en strandaði oftar en ekki á Giedrius Morkunas, markverði Hauka sem fór hamförum í fyrri hálfleik og varði 14 skot, mörg úr opnum færum. Það var honum fyrst og fremst að þakka að Hauka voru aðeins mark yfir í hálfleik, 9:8.

Haukar voru með frumkvæðið framan af en voru þó aldrei meira en marki yfir. Valsmenn bættu í undir lok hálfleiksins og voru verðskuldað marki yfir þegar gengið var til búningsherberga í hálfleik.

Eftir jafnar fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks þá komust Haukar tveimur mörkum yfir, 14:12, og síðan 15:13, á næstu mínútum á eftir og síðan þriggja marka forskoti, 16:13, þegar hálfleikurinn var nákvæmlega hálfnaður. Mest náðu Haukar fjögurra marka forskoti, 17:13. Vörnin var frábær og Valsmenn stóðu ráðþrota gegn henni og einstaka leikmenn voru ekki nema skugginn af sjálfum sér eins og Guðmundur Hólmar Helgason sem átti á annan tug mislukkaðra skot í leiknum. Þá hélt Morkunas áfram að vera Valsmönnum óþægur ljár í þúfu.

Haukar náðu þriggja marka forystu , 18:15, en Valsmenn minnkuðu muninn í 18:17, þegar sjö mínútur voru til leiksloka.  Nær komust Valsmenn ekki. Sveinn Aron Sveinsson gat jafnað metin í 20:20, þegar 45 sekúndur voru eftir en vippaði boltanum yfir Morkunas markvörður og framhjá markinu. Árni Steinn Steinþórsson innsiglaði sigurinn þegar 12 sekúndur voru til leiksloka, 21:19.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Þriðji leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda á þriðjudagskvöldið en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitin.

Haukar 21:19 Valur opna loka
60. mín. Sveinn Aron Sveinsson (Valur) skýtur yfir - þegar 45 sekúndur eru eftir. Vippaði yfir Morkunas og framhjá markinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert