Bogdan heiðursgestur í Víkinni í kvöld

Bogdan Kowalczyk í hópi handknattleiksfólks á laugardagskvöldið.
Bogdan Kowalczyk í hópi handknattleiksfólks á laugardagskvöldið. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Bogdan Kowalczyck, fyrrverandi þjálfari Víkings og íslenska landsliðsins í handknattleik, verður sérstakur heiðursgestur á leik Víkings og Fjölnis í kvöld en liðin mætast þá í fyrsta úrslitaleik sínum um sæti í úrvalsdeild karla og hann hefst klukkan 19.30.

Bogdan kom til landsins fyrir helgina til að vera viðstaddur lokaþáttinn af „Handboltalið Íslands“ á RÚV á laugardagskvöldið en þar fékk hann sérstök heiðursverðlaun. Hann náði síðan að framlengja dvölina til að vera viðstaddur leikinn í kvöld en Bogdan þjálfaði Víking árin 1979 til 1983 og liðið varð Íslandsmeistari fjórum sinnum í röð undir hans stjórn.

Að sögn Haraldar V. Haraldssonar framkvæmdastjóra Víkings er gríðarlegur áhugi fyrir leiknum meðal félagsmanna, sem eiga von á að allt að eitt þúsund áhorfendur mæti i Víkina í kvöld. Talið er að þetta verði best sótti leikur í Víkinni síðan Geir Sveinsson lék þar með spænska liðinu Avidesa í Evrópukeppni gegn Víkingum árið 1991.

Víkingur og Fjölnir lögðu andstæðinga sína í umspili 1. deildar, Hamrana og Selfoss, og heyja þetta einvígi til að skera úr um hvort liðið fylgir Gróttu upp í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert