Víkingur vann fyrsta leikinn

Sigurður Eggertsson sækir á vörn Fjölnis í Víkinni í kvöld.
Sigurður Eggertsson sækir á vörn Fjölnis í Víkinni í kvöld. mbl.is/Golli

Víkingur og Fjölnir mættust í fyrsta úrslitaleik sínum um sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik í Víkinni í kvöld. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Víkingur hafnaði í öðru sæti 1. deildar og Fjölnir í þriðja sæti. Víkingar unnu Hamrana 2:0 í undanúrslitum umspilsins og Fjölnir vann Selfoss 2:1.

Víkingur vann fyrsta leik liðanna í barátunni um sæti í úrvalsdeild í handknattleik karla að ári. Lokatölur í leiknum urðu 27:21 fyrir Víking. Magnús Gunnar Erlendsson var frábær í marki Víkinga í leiknum og var að öðrum ólöstuðum munurinn á milli liðanna í kvöld.

Næsti leikur liðanna fer fram í Grafarvogi sumardaginn fyrsta.  

60. Lokatölur 27:21 fyrir Víking.

59. Liðin skiptast á að skora og staðan er 27:21 fyrir Víking.

58. Jón Hjálmarsson skorar tvö mörk í röð fyrir Víking og kemur þeim í 26:20.

57. Fjölnir missir boltann í sókninni og það virðist vera sem heimamenn séu að sigla sigrinum í land.

56. Einar Gauti Ólafsson skorar fyrir Víking og Magnús Gunnar Erlendsson, markvörður Víkings, með gríðarlega mikilvæga markvörslu hinum megin. Staðan er 24:20 fyrir Víking.  

53. Fjölnir fær vítakast og getur minnkað muninn í þrjú mörk. Brynjar Loftsson fer á vítalínuna og skorar. Staðan er 22:19 fyrir Víking. Fjölnir vinnur boltann og getur minnkað muninn í tvö mörk. Brynjar Loftsson gerir það. Staðan er 22:20 fyrir Víking.

52. Sveinn Þorgeirsson með tvö mörk í röð og lagar stöðuna fyrir Fjölni. Staðan er 22:18 fyrir Víking.

51. Víkingur skorar og kemst aftur í sex marka forystu. Staðan er 22:16 fyrir Víking.

50. Sigurður Eggertsson með fallega línusendingu á Jóhann Reynir Gunnlaugsson sem fiskar víti. Arnar Freyr Theodórsson skorar mikilvægt mark úr vítakastinu og kemur Víkingi í 21:16. Fjölni bregst bogalistinn í næstu sókn.

49. Víkingur tekur leikhlé. Ágúst Jóhannsson og Gústaf Adolf Björnsson líklega ekki ánægðir með óðagotið í sóknarleik liðsins að undanförnu.

48. Brynjar Loftsson skorar fyrir Fjölni og minnkar muninn í 20:15. Víkingur missir boltann í næstu sókn sinni. Fjölnir minnkar muninn enn frekar í næstu sókn. Staðan er 20:16 fyrir Víking.   

44. Leikhléið ber árangur þar sem Bjarni Ólafsson minnkar muninn  fyrir Fjölni í fyrstu sókninni eftir leikhléið. Staðan er 20:14 fyrir Víking.

43. Sveinn Þorgeirsson með skot í þverslána fyrir Fjölni. Arnar Freyr Theodórsson skorar og kemur Víkingi í 20:13. Arnar Gunnarsson þjálfari Fjölnis tekur leikhlé.

42. Einar Gauti Ólafsson kemur Víkingum í sex marka forystu. Staðan er 19:13 fyrir Víking.

41. Magnús Gunnar Erlendsson hefur verið frábær í leiknum í kvöld og ver hér enn eitt skotið. Staðan er 18:13 fyrir Víking.

40. Magnús Gunnar Erlendsson heldur áfram að verja í marki Víkinga og hinum megin fiska Víkingar vítakast sem Jóhann Reynir Gunnlaugsson skorar úr. Staðan er 18:13 fyrir Víking.

39. Staðan er 17:13 fyrir Víking.

37. Hlynur Óttarsson eykur muninn í 16:11. Kristján Örn Kristjánsson skorar fyrir Fjölni og minnkar muninn í fjögur mörk. Staðan er 16:12 fyrir Víking.

36. Einar Gauti Ólafsson skorar fyrir Víking og kemur þeim í fjögurra marka forystu. Staðan er 15:11 fyrir Víking.

35. Fjölnir fiskar vítakast sem Brynjar Loftsson skorar úr. Staðan er 14:11 fyrir Víking.

34. Magnús Gunnar Erlendsson, markvörður Víkings, heldur áfram frá því sem frá var horfið í fyrri hálfeik og ver.  Sveinn Þorgeirsson fær svo tvær mínútur hinum megin. Þetta gæti reynst dýrt. Sigurður Eggertsson skorar og eykur muninn fyrir Víking. 14:10 fyrir Víking.

33. Sveinn Þorgeirsson, leikmaður Fjölnis, minnkar muninn enn frekar. 13:10 fyrir Víking.

32. Arnar Ingi Guðmundsson lagar stöðuna fyrir Fjölni. 13:9 fyrir Víking.

31. Sigurður Eggertsson, leikmaður Víkings, byrjar seinni hálfleikinn á að prjóna sig í gegn og fiska vítakast sem Jóhann Reynir Gunnlaugsson skorar úr. 13:8 fyrir Víking.

30. Staðan í hálfleik er 12:8 fyrir Víking. Sóknarleikur Fjölnis er nokkuð hægur og ekki nógu mikið flot í sókninni hjá þeim. Varnarleikur Víkinga er gríðarlega sterkur og Magnús Gunnar Erlendsson hefur átt góðan leik í markinu. Boltinn flýtur betur í sóknarleik Víkinga og kerfin eru að virka betur þeim megin. Hlynur Óttarsson, leikmaður Víkings, hefur verið atkvæðamestur í leiknum með fjögur mörk.

29. Víkingar fara illa að ráði sínu í lokasókn sinni í fyrri hálfleiknum og Fjölnir fær möguleika á að minnka muninn enn frekar. Fjölnismenn vilja vítakast en fá aðeins aukakast sem er varið af varnarveggnum.

28. Fjölnir minnkar muninn í 12:8.

27. Staðan er 12:7 fyrir Víking.

21. Staðan er 10:6 fyrir Víking.

19. Staðan er 9:5. Magnús Gunnar Erlendsson, markvörður Víkinga, er að loka markinu.

7. Vörn Víkings er afar sterk og þar fyrir aftan er Magnús Gunnar Erlendsson í banastuði. Staðan er 4:1 fyrir Víking. 

3. Magnús Gunnar Erlendsson, markvörður Víkings, ver tvö skot í sömu sókninni. 

2. Hlynur Óttarsson skorar fyrsta mark leiksins fyrir Víking. 1:0 fyrir Víking

1. Magnús Gunnar Erlendsson, markvöður Víkings, ver fyrsta skot leiksins. Víkingur fer í hraða sókn og missir boltann. 

0. Verið er að hylla Bogdan Kowalczyk og allir þeir sem eru mættir hér í kvöld standa upp í klappa þessum mikla meistara lof í lófa. 

Fólk streymir að hér í Víkina og heldri stuðningsmenn Víkinga tala um að þetta minni á gömlu góðu dagana. Það er orðið þétt setið beggja vegna í stúkunni og stemningin að magnast. 

Pólski þjálfarinn Bogdan Kowalczyk, fyrrverandi þjálfari Víkings, er á landinu um þessar mundir og verður heiðursgestur á leiknum í kvöld. 

Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrvalsdeild á næsta ári. Víkingur vann alla þrjá leikina sem liðin spiluðu í vetur og þykja því sigurstranglegri í einvígi liðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert