,,Áttum þetta aldrei skilið"

Sigurður Eggertsson, leikmaður Víkings.
Sigurður Eggertsson, leikmaður Víkings. mbl.is/Golli

,,Þetta var rosalega erfitt og við áttum þetta aldrei skilið," sagði Sigurður Eggertsson, leikmaður Víkings, eftir 27:26 sigur liðsins á Fjölni í umspili um sæti í Olís-deild karla í kvöld.

Víkingur vann fyrsta leik umspilsins gegn Fjölni nokkuð örugglega en liðið átti erfitt uppdráttar í kvöld og komst ekki í gírinn fyrr en seint í leiknum. Það reyndist þó nóg gegn Fjölni, sem vantaði reynsluna á lokakaflanum.

Sigurður var skugginn af sjálfum sér í fyrri hálfleiknum en reyndist liðinu þó afar mikilvægur síðustu mínúturnar og átti stóran þátt í því að tryggja liðinu sigur.

,,Þetta var rosalega erfitt, við áttum þetta aldrei skilið. Mér fannst við arfaslakir í fyrri hálfleik og eiginlega líka í seinni en þó skömminni skárri. Við vorum alveg hauslausir," sagði Sigurður við mbl.is í kvöld.

,,Það gæti verið reynslan og það eru margir sem eru að spila svona mínútur. Þeir eru rosalega ungir, þetta bara datt svolítið með okkur. Þetta var svona ,,make or break" leikur fyrir þá því þeir ættu að taka þetta á sínum heimavelli en við mættum bara eins og ég veit ekki hvað og þar var ég ekki undanskilinn, ég var ekki með fyrstu 45 mínúturnar."

Víkingur náði þeim úrslitum sem liðið ætlaði sér og fær því gullið tækifæri til þess að koma sér upp um deild á laugardaginn í þriðja leiknum.

,,Það var alltaf planið að klára þetta í þriðja leik og maður hefði giskað á að þessi leikur væri erfiðasti leikurinn og vonandi verður þetta erfiðasti leikurinn og vonandi förum við ekki að klúðra þessu á heimavelli en mig langar hrikalega mikið upp á laugardaginn."

,,Ég býst við svipuðum leik. Þetta var alltof létt í fyrsta leik því þeir komust aldrei inn í hann, þannig ég býst við baráttu aftur og vonandi endar þetta á þennan veg aftur. Við erum líka svo gamlir að við erum tæpir að fara í fjórða og fimmta leik," sagði Sigurður léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert