,,Höfðu reynsluna fram yfir okkur"

Úr fyrsta leik Fjölnis og Víkings.
Úr fyrsta leik Fjölnis og Víkings. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

,,Þetta var helvíti sárt að tapa þessu svona. Mér fannst við vera með unninn leik," sagði Arnar Ingi Guðmundsson, leikmaður Fjölnis eftir 26:27 tap liðsins gegn Víking í öðrum leik umspils um sæti í Olís-deild karla í kvöld.

Arnar Ingi var atkvæðamestur Fjölnismanna með 7 mörk í kvöld en liðið var með mikla yfirburði í leiknum og var útlit fyrir að liðið myndi jafna einvígið.

Reynsluríkt lið Víkings hafði þó betur með góðri spilamennsku undir lok leiksins og annar sigur þeirra því staðreynd.

,,Mér fannst liðið mjög massíft og við vorum að spila við frábært Víkingslið. Við erum með unga stráka og vorum öflugir fannst mér. Við vorum grimmari og áræðnari, meiri barátta og trú á þessu," sagði Arnar ennfremur.

,,Við fáum á okkur tvær mínútur klaufalegar og á móti svona reynslumiklu liði þá er það helvíti erfitt. Þeir voru með reynsluna framyfir okkur."

Arnar hefur mikla trú á Fjölnisliðinu í þriðja leiknum en hann fer fram í Víkinni á laugardag.

,,Það var fullt af ljósum punktum. Vörnin var öflug og við vorum að sækja á þá en ég hef mikla trú á þessu í Víkinni. Ef við vinnum næsta leik þá galopnast þetta, þá þurfa þeir að koma hérna og það var erfitt fyrir þá í kvöld," sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert