Fjölnisliðið átti skilið að vinna

„Við ætlum að vinna þennan leik og ljúka umspilinu þar með. Við vissum hinsvegar að það yrði erfitt þar sem Fjölnir hefur tekið miklum framförum á leiktíðinni," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Víkings, eftir tveggja marka tap, 21:19, í þriðja umspilsleiknum við Fjölni um keppnisrétt í Olís-deildinni á næstu leiktíð.

Eftir leikinn hefur Fjölnir einn vinning en Víkingur tvö. Þrjá vinninga þarf til þess að tryggja sér keppnisrétt í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Næst leiða liðin saman hesta sína í Dalhúsum í Grafarvogi á þriðjudagskvöldið klukkan 19.30. 

„Því miður þá náðum við okkur ekki á strik í dag," sagði Ágúst Þór. „Mér fannst við vera klaufar að ná ekki meira forskoti snemma leiks. Þá hélt vörnin okkar vel auk þess sem við fengum hraðaupphlaup. Við vorum í basli með sóknarleikinn og fórum auk þess illa að ráði okkar í mörgum upplögðum marktækifærum. Ingvar var sterkur í markinu hjá þeim. 

Fjölnisliðið var einfaldlega betra og átti skilið að vinna," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Víkings.

Nánar er rætt við Ágúst Þór á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert