Nýtt markmið með hverjum leik

„Grunnurinn að þessum sigri var frábær varnarleikur auk þess sem Ingvar varði á mikilvægum augnablikum," sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis eftir að liðið vann Víkinga, 21:19, í þriðja leik liðanna í keppni um þátttökurétt í Olís-deild karla í handknattleik á næstu leiktíð. Þetta var fyrsti sigur Fjölnis á Víkingum í þessari rimmu og reyndar allt keppnistímabilið. Víkingur hefur tvo vinninga og er enn einum vinningi frá að tryggja sér keppnisrétt í Olís-deildinni á næstu leiktíð.

Næsti leikur liðanna verður í Dalhúsum í Grafavogi á þriðjudaginn. „Við héldum haus í lokin, létum ekki brjóta okkur á bak aftur," sagði Arnar minnugur annarrar viðureignar liðanna þegar Fjölnir hafði yfirhöndina allt þar til í lokin að reynsla Víkinga sagði til sín og komst fram úr vann naumlega. Það var ekki að sjá að leikmönnum Fjölnis í dag að þeir hafi dvalið lengi við það gremjulega tap. „Síðasti leikur endaði illa en menn tóku þau vonbrigði út og komu baráttuglaði til leiks í dag. Við uppskárum samkvæmt því," sagði Arnar.

„Það var ekki okkur mikilvægt að vinna þennan leik í stað þess að mæta og tapa og fá þá að heyra það ef til vill að við hefðum hvort eð er aldrei átt erindi í Víkinga. Við höfum sýnt að við eigum erindi í Víkingana," segir Arnar sem hlakkar til næstu viðureignar á heimavelli á þriðjudagskvöldið klukkan 19.30 en forðast yfirlýsingar. „Við skulum sjá til hvað setur.

Þessi leikir eru ævintýri fyrir okkur. Vonandi fáum við fullt hús áhorfenda á þriðjudaginn. Þá ætlum við að leggja allt undir og ef vel gengur tekur við hreinn bikarúrslitaleikur," segir Arnar og bætir við að hver leikur Fjölnis í úrslitakeppninni hafi verið sigur fyrir þetta unga lið. 

„Við eru löngu komnir framúr upphaflegu markmiði leiktíðarinnar. Eftir að úrslitakeppnin tók við höfum við sett okkur markmið fyrir hvern leik og höldum því áfram," sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis.

Nánar er rætt við Arnar Gunnarsson, þjálfara Fjölnis á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert