Bjarki ánægður með upphitun Óla Stef

Bjarki Már Gunnarsson
Bjarki Már Gunnarsson Eva Björk Ægisdóttir

Það mun mikið mæða á Bjarka Má Gunnarssyni, landsliðsmanni í handknattleik í leikjunum tveimur gegn Serbíu í undakeppni Evrópumótsins sem framundan eru þar sem Serbarnir hafa tvær sterkar skyttur, þá  Mom­ir Ilic, leik­mann Veszprém í Ung­verjalandi og Mar­ko Vuj­in hjá Kiel í Þýskalandi.

Fyrri leikurinn fer fram í Laugardalshöll á miðvikudag en sá síðari úti í Serbíu þann 3. maí.

Bjarki segir það vera mikla áskorun að takast á við fyrrnefndar skyttur en segist spenntur.

„Þetta verður mikil áskorun. Þeir eru með tvær virkilega sterkar skyttur, það verður gaman að fá að takast á við þá í vörninni. Við þurfum að mæta þeim og vera hreyfanlegir, það er bara tilhlökkun að takast á við þá,“ sagði Bjarki.

Bjarki er einnig ánægður með innkomu Ólafs Stefánssonar í þjálfarateymi landsliðsins en hann kom inn í teymið á dögunum. Sér í lagi með upphitunarleikinn frá Ólafi þar sem reynir mjög á einbeitingu manna.

„Hann kom með skemmtilegan upphitunarleik og kemur virkilega vel inn í þetta. Það er flott að fá hann, hann veit allt um handbolta, við hljótum að gerta lært af honum,“ sagði Bjarki áður en útskýrði upphitun Ólafs nánar.

„Þú þarft að huga um handbolta, vesti og fótbolta í einu, þetta er smá hugarleikfimi,“ sagði Bjarki Már.

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert