Ásgeiri og Momir Ilic lenti saman

Mikið mæddi á Ásgeir Erni Hallgrímssyni bæði í vörn og sókn í hans 219. A-landsleik í Serbíu í kvöld. 

Ásgeir lét finna fyrir sér í vörninni að venju og æsti stærstu stjörnu Serba upp strax á upphafsmínútunum, Momir Ilic, sem lengi var lærisveinn Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi. Ásgeir varðist Ilic sem brást ókvæða við en Ásgeir svaraði fullum hálsi. Merkilegt var að fylgjast með serbnesku áhorfendunum í framhaldinu en í kjölfarið tóku þeir hressilega við sér en tæplega 4 þúsund manns voru í Hala Chair-höllinni í Nís í kvöld þar sem Serbía og Ísland gerðu jafntefli 25:25 í undankeppni EM í handbolta. 

Ásgeir er greinilega ekki eins dramatískur og blaðamaður mbl og gerði ekki mikið úr atvikinu. „Ég gerði ekki neitt af mér. Ég var bara að reyna að verjast. Hann var bara eitthvað að reyna að æsa liðið í gang held ég. Þetta var ekkert og bara taktík hjá honum held ég en ég var náttúrlega ekki ánægður með þetta. Það þýðir ekkert að leyfa honum að komast upp með eitthvað svona kjaftæði. Hann heldur að hann sé eitthvað nafn í þessu og geti leyft sér eitthvað meira en við hinir,“ útskýrði Ásgeir og setti upp prakkaralegt glott. 

Ásgeir sagði ennfremur að íslenska liðið hefði verið í lægð að undanförnu en hefði sýnt sitt rétta andlit í leikjunum gegn Serbíu. Menn væru aftur orðnir ákafir og klókir í vörninni auk þess sem reynt væri að þvinga andstæðingana í þau skot sem Björgvin Páll Gústavsson markvörður vill helst fá á sig ef hægt er. Viðtalið við Ásgeir má sjá í meðfylgjandi myndskeiði. 

Ásgeir Örn í fyrri leiknum gegn Serbíu
Ásgeir Örn í fyrri leiknum gegn Serbíu mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert