„Gríðarlega góð vika“

„Ég er stoltur af strákunum að ná stigi. Það hefði verið sætt að ná tveimur. Við vorum í góðri stöðu í lokin,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik við mbl.is þegar niðurstaðan lá fyrir í Serbíu í kvöld: 25:25 jafntefli. 

Aron var mjög ánægður með leik liðsins og uppskeruna í leikjunum tveimur gegn Serbíu og má vera það. Stórsigur á heimavelli 38:22 og jafntefli á útivelli sem gerir það að verkum að Ísland á góða möguleika á því að vinna riðilinn og komast í lokakeppnina í Póllandi í janúar. 

„Varnarleikur og markvarsla, sú samvinna hefur verið mjög góð í þessum leikjum. Hraðaupphlaupin mjög góð líka. Það var eitt af áherslupunktunum og þar vorum við sterkir. Sóknarleikur beittur en við skoruðum 38 mörk gegn þeim á heimavelli. Það var gríðarlega sterkt þar sem hraðaupphlaup og sóknarleikur virkuðu vel. Nú skoruðum við 25 mörk á erfiðum útivelli,“ sagði Aron meðal annars en viðtalið við hann má sjá í meðfylgjandi myndskeiði. 

Aron forðaðist að fullyrða um það hvort varnarjaxlinn Sverre Jakobsson hefði leikið sinn síðasta landsleik en Sverre samþykkti að taka þátt í leikjunum Serbíu og framhaldið er óráðið. 

Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert