„Vonandi verður fullt hús“

Ljúfmennin Bjarki Már Gunnarsson og Sverre Jakobsson eru engin lömb …
Ljúfmennin Bjarki Már Gunnarsson og Sverre Jakobsson eru engin lömb að leika sér við þegar inn á völlinn er komið. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bjarki Már Gunnarsson átti frábæran leik í vörninni eins og aðrir í íslenska landsliðinu þegar liðið burstaði Serbíu 38:22 í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið. Bjarki segir viðbúið að Serbar muni reyna að breyta eitthvað til í sókninni í Nís í dag þegar liðin mætast öðru sinni í undankeppni EM.

Í Laugardalshöllinni voru íslensku landsliðsmennirnir ákafir í vörninni og fóru langt út á móti skyttum serbneska liðsins. Skilaði það góðum árangi og mörgum hraðaupphlaupum. Í ljósi spilamennsku íslenska liðsins á miðvikudagskvöldið þá spurði mbl.is Bjarka hvort ekki yrði lagt upp með svipaðar áherslur í vörninni í dag?  

„Við reynum að bæta það sem gekk illa í síðasta leik. Við ætlum að halda þessu áfram og stíga næsta skref í að bæta okkur sem lið. Við vitum að þeir munu koma með fullt af svörum við því sem við gerðum í síðasta leik og þá er spurningin hvernig við munum bregðast við því. Við þurfum að reyna að lesa það þegar út í leikinn er komið. Við reynum að byggja ofan í síðasta leik og búa til samstillta vörn.“

Var eitthvað í vörn íslenska liðsins í síðasta leik sem Ísland þarf að bæta?

„Já, þeim tókst að koma boltanum nokkuð oft inn á stóra manninn á línunni. Hann plantaði sér á milli hornamanns og skyttu. Við höfum farið yfir það ásamt ýmsum skiptingum og klippingum. Einnig verður forvitnilegt að sjá hvaða breytingar þeir gera á sínum sóknarleik. Þeir munu gera það og það væri gaman að fá að horfa á æfingu hjá serbneska liðinu,“ sagði varnarjaxlinn og glotti.

Bjarka líst vel á að spila í höllinni í Nís en mbl.is tók hann tali að lokinni æfingu þar í gær.

„Höllin er flott. Maður tók eftir því að það bergmálar í höllinni og þar af leiðandi má búast við þvílíkum látum á leiknum. Vonandi verður bara fullt hús, það er alltaf skemmtilegra,“ sagði Bjarki Már Gunnarsson ennfremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert