„Ef einhverjir geta þetta...“

Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Fyrir leikinn hefðum við örugglega tekið stigið. Við byrjuðum vel og þetta leit vel út fyrir okkur framan af. Síðan gáfum við aðeins eftir og vorum tveimur mörkum undir eftir fyrri hálfleik. Við vorum ekki í neitt spes stöðu í síðari hálfleik, aðallega vegna þess að við klikkuðum á dauðafærum.

Við spiluðum ágætlega að mörgu leyti og fengum ekki á okkur mörg mörk. Þar af leiðandi hefðum við getað verið í miklu betri stöðu en raunin var þegar fimm mínútur voru eftir. Úr því sem komið var, þar sem við vorum þremur undir og rosalega lítið eftir, þá hljótum við að vera nokkuð sáttir við eitt stig. Af því að tækifærið var til staðar þá hefði maður viljað ná báðum stigunum,“ sagði stórskyttan Aron Pálmarsson þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í leikslok í Serbíu í gærkvöldi.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta gerði þar jafntefli 25:25 eftir skrautlegan leik og mikla spennu. Eftir tvo góða leiki gegn Serbíu getur Ísland unnið sinn riðil í undankeppni EM.

Staðan er þó ekki glæsileg þegar um tvær mínútur voru eftir en þá var staðan 25:22. Þá lokaði íslenska liðið vörninni og skoraði þrjú síðustu mörkin úr hraðaupphlaupum.

„Við vissum náttúrlega að við þyrftum að vinna boltann af þeim á mjög stuttum tíma. Við gerðum allt sem við gátum til þess og kannski þoldu þeir ekki alveg pressuna. Við gerðum vel í því að vinna boltann og vorum fljótir fram. Svona er bara handboltinn í dag að hlutirnir gerast hratt og við refsuðum þeim fyrir mistök. Við höfum alltaf verið með flott hraðaupphlaupslið. Ef einhverjir geta þetta þá erum það við,“ sagði Aron sem skoraði 4 mörk þrátt fyrir að vera vel gætt enda vel kynntur í Serbíu, þar sem handboltahefðin er rík, vegna afreka sinna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert