„Ætlum að standa í þeim“

Sólveig Lára Kjærnested..
Sólveig Lára Kjærnested.. mbl.is/Styrmir Kári

Sólveig Lára Kjærnested, leikmaður Stjörnunnar, var yfirveguð fyrir fyrsta leik úrslitarimmunnar gegn Gróttu þegar mbl.is ræddi við hana í dag. Þetta verður þriðja úrslitarimma Sólveigar í röð með Stjörnunni en Stjarnan beið lægri hlut síðustu tvö árin. Hún reiknar þó ekki með því að reynslan muni gera gæfumuninn.

"Reynslan mun áreiðanlega hjálpa okkur en Gróttustelpur eru með leikmenn sem hafa farið í úrslit öðrum liðum þannig að þær hafa reynslu líka“

Stjarnan sækir Gróttu heim í Hertz-höllina á Seltjarnarnesi í fyrsta leik úrslitarimmunnar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna. Það eru aðeins 3 dagar síðan Stjarnan lék síðasta leik undanúrslitanna gegn ÍBV.

„Þetta var alveg stutt pása, maður hefði viljað aðeins meiri hvíld en svona er þetta bara. Við teljum okkur vera vel undirbúnar, það verður síðan að koma í ljós í kvöld.“

Deildarmeistarar Gróttu hafa verið mjög sannfærandi í ár. Þær eru með gríðarlega sterka vörn og Íris Björk hefur verið frábær í markinu. Sólveig telur þær þó ekki lausar við veikleika.

„Það eru klárlega veikleikar á þessu liði eins og öllum liðum. Annars hefðu þær bara valtað yfir ÍBV, 3:0. Við teljum okkur vera búnar að finna þá og það er bara spurning hvort við náum að nýta okkur þá. “

Engin meiðsli eru hjá Stjörnunni, allar stelpurnar eru leikfærar og í góðum gír. Sólveig telur það vera lykilatriði að halda ró sinni fyrir leikinn.

„Núna snýst þetta bara um að ná sem mestri hvíld og næra sig, þetta er svo ofboðslega stutt hvíld. ég reyni að hugsa sem minnst um leikinn yfir daginn, halda minni rútínu. Ég er ekki með lukkupening í sokknum“

Grótta vann stóra sigra á Stjörnunni í vetur, annan leikinn með 14 marka mun og hinn með 10 marka mun.

„Við erum klárlega litla liðið í þessu einvígi en við ætlum að standa í þeim, spila vel og sjá hverju það skilar okkur. Þær rúlluðu náttúrulega yfir okkur í vetur þannig að það verður forvitnilegt að sjá hvernig okkur hefur miðað áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert