Sama vandamál og gegn Fram

Laufey Ásta Guðmundsdóttir úr Gróttu sækir að marki Stjörnunnar í …
Laufey Ásta Guðmundsdóttir úr Gróttu sækir að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert

„Mér fannst við bara ekki nógu öflugar í dag,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, besti sóknarmaður Stjörnunnar í kvöld í 24:21-tapinu gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í fyrsta leik úrslitaeinvígisins um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik.

Íris Björk Símonardóttir varði 25 skot í marki Gróttu en Sólveig Lára segir það ekki beinlínis hafa ráðið úrslitum.

„Sóknarleikurinn var undir pari hjá okkur og vörnin ágæt, en 24 mörk er svolítið mikið. Það datt ýmislegt fyrir þær en við vorum bara ekki nógu sterkar. Íris er frábær markmaður og yfirleitt með 20 varin skot, en það var kannski ekki aðalatriðið. Við komumst ekki í nógu góð færi og þurfum að vera aðeins skynsamari,“ sagði Sólveig. Blaðamaður benti á að Helena Rut Örvarsdóttir hefði skotið ansi mikið á markið en hún skoraði 5 mörk úr um það bil 15 skotum.

„Helena er okkar aðalskytta og verður að skjóta á markið. Þó að skotin detti ekki þá verður hún alltaf að vera ógnandi og má skjóta eins og hún vill á meðan hún er inni á vellinum. Það er þá bara þjálfaranna að taka hana út af,“ sagði Sólveig.

Grótta missti tvo menn af velli í tvær mínútur þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka en Stjörnunni tókst ekki að skora á þeim kafla.

„Þetta var vandamálið líka gegn Fram. Við vorum arfaslakar oft manni fleiri, og jafnvel tveimur. Þetta eru augnablik í leikjunum sem við verðum að nýta betur. En þetta verður hörkueinvígi. Við bjuggumst kannski ekki við að vinna það 3:0 en nú förum við bara í Garðabæinn og gerum betur,“ sagði Sólveig.

Sólveig Lára Kjærnested í baráttu við Ragnheiði Júlíusdóttur í undanúrslitunum …
Sólveig Lára Kjærnested í baráttu við Ragnheiði Júlíusdóttur í undanúrslitunum gegn Fram. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert