Unnu VIP-ferð til Kölnar

Bræðurnir munu styðja vel við bakið á Guðjóni Val Sigurðssyni …
Bræðurnir munu styðja vel við bakið á Guðjóni Val Sigurðssyni í Köln. Mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta heppnaðist hreinlega í fyrstu tilraun,“ sagði Aron Gauti Laxdal um myndband sem þeir Daði bróðir hans gerðu og skilaði þeim sigri í myndbandakeppni á vegum handknattleikssambands Evrópu. Bræðurnir fá í verðlaun sérstaka VIP-ferð á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í handbolta í Köln í Þýskalandi.

Keppnin snerist um að reyna að hitta þverslá handboltamarks sex sinnum með sem frumlegustum hætti. Ekki þurfti endilega að hitta slána sex sinnum heldur var frumleikinn aðalatriðið. Aroni og Daða datt í hug að notast við stóra uppblásna bolta, standa á þeim og halda jafnvægi á meðan að þeir köstuðu að marki. Sigurmyndbandið má sjá hér að neðan og óhætt að segja að vel hafi tekist til, en það er Daði, sem lék með HK í Olís-deildinni í vetur, sem er í aðalhlutverki í myndbandinu.

„Þetta var bara gaman. Við sáum viðbrögðin sem vídjóið fékk og vorum ágætlega sigurvissir, en maður veit aldrei hvað gerist. Skilafresturinn var svo lengdur og þá urðum við svolítið stressaðir,“ sagði Aron við mbl.is, eftir að hafa frétt af sigrinum í dag.

Æft mikið á þessum boltum

„Við erum báðir búnir að æfa mikið á þessum boltum, vorum orðnir góðir í þessu og fannst þetta vera eitthvað sem fáir gætu slegið við. Markmiðið var alltaf að vinna þessa keppni. Pabbi er búinn að vera mikið með okkur í æfingum á þessum boltum og í gegnum tíðina hefur maður alltaf verið að prófa sig áfram með nýjar æfingar og sjá hvað hægt væri að gera,“ sagði Aron en faðir bræðranna er sjúkraþjálfarinn Gauti Grétarsson.

Svo vel heppnaðist myndbandið að blaðamaður velti fyrir sér hvort ekki hefði þurft heilmargar tilraunir til að ná því.

„Það sem var svo fyndið var að við vorum búnir undir að vera að þessu allt kvöldið en svo heppnaðist þetta hreinlega í fyrstu tilraun. Eftir því sem við reyndum oftar gekk þetta eiginlega bara verr,“ sagði Aron léttur.

Á meðal liðanna sem bítast um Evrópumeistaratitilinn í Köln eru Kiel, með þjálfarann Alfreð Gíslason og Aron Pálmarsson, og Barcelona, með landsliðsfyrirliðann Guðjón Val Sigurðsson. Bræðurnir bera taugar til beggja liða.

„Við vorum þarna í fyrra og héldum þá með Kiel en við þekkjum Guðjón Val svo vel að maður getur eiginlega ekki sleppt því að halda með honum,“ sagði Aron sem er af Seltjarnarnesi líkt og Guðjón Valur en hefur hefur búið í Noregi síðustu sex ár og leikið þar í 1. og 2. deild.

Our first winners of the #SCOREMORE Challenge are the Laxdal brothers from Iceland for this brilliantly acrobatic...

Posted by EHF Champions League on Tuesday, May 5, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert