Eftirvænting og spenna

Pétur Júníusson er hér að skora gegn Haukum.
Pétur Júníusson er hér að skora gegn Haukum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég kom heim á sunnudaginn og fór beint í fjörið,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, léttur í bragði í gær nýkominn heim eftir leikja- og æfingatörn með austurríska landsliðinu í handknattleik sem Patrekur stýrir samhliða þjálfun karlaliðs Hauka út þetta keppnistímabil.

Haukar sækja leikmenn Aftureldingar heim í kvöld í fyrstu viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Flautað verður til leiks í N1-höllinni á Varmá klukkan 19.30.

„Ég var í góðu sambandi við mína menn þann tíma sem ég var úti með austurríska landsliðinu. Þeir æfðu undir stjórn Óskars Ármannssonar samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun frá mér,“ sagði Patrekur og bætir við að tilhlökkun og spenna ríki meðal leikmanna að hefja nú keppni á nýjan leik en leikmenn Hauka hafa ekki tekið þátt í kappleik síðan þeir unnu Val þriðja sinni í undanúrslitum, 29:22 þriðjudaginn 21. apríl. Afturelding lék síðast í undanúrslitum sunnudaginn 26. apríl, þá oddaleik við ÍR.

Þrír háspennuleikir í vetur

„Við tóku nokkurra daga frí frá æfingum eftir leikina við ÍR en höfum verið að búa okkur undir einvígið við Hauka síðustu daga. Við hlökkum til,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, við Morgunblaðið í gær.

„Leikir Aftureldingar og Hauka í deildinni í vetur voru sannkallaðar háspennuviðureignir. Tveimur þeirra lauk með jafntefli og við unnum einu sinni með einu marki. Ef þeir gefa einhverja vísbendingu um það sem koma skal þá er útlit fyrir hörku einvígi,“ sagði Einar Andri ennfremur en hann var þjálfari FH í úrslitarimmunni við Akureyri 2011 og HK árið eftir.

„Ég hef farið vel yfir leiki okkar í undanúrslitum, gegn FH og síðan Val. Þar kemur skýrt fram að við lékum afar vel. Það má segja að við verðum að ná þeim leikjum fram hjá okkur aftur gegn Aftureldingu í úrslitarimmunni. Það er alveg á hreinu,“ segir Patrekur, þjálfari Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert