Fer Hansen til Kiel í sumar?

Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. EPA

Danski handknattleiksmaðurinn Mikkel Hansen er sterklega orðaður við þýska meistaraliðið THW Kiel sem Alfreð Gíslason þjálfari og Aron Pálmarsson leikur með út þessa leiktíð. Hansen leikur nú með franska liðinu PSG en það ætlar sér að kaupa Frakkann Nikola Karabatic frá Barcelona að lokinni þessari leiktíð. 

Verði af þeim kaupum sem flest bendir til er ljóst að minna pláss verður fyrir Hansen í byrjunaliði PSG. 

Ekki aðeins er Hansen orðaður við Kiel heldur einnig þýski landsliðsmaðurinn Uwe Gensheimer, núverandi leikmaður Rhein-Neckar Löwen. Gensheimer er samningsbundinn Löwen fram á mitt næsta ár. 

Kiel er sagt eiga í viðræðum við flugfélagið Turkish Airlines og takist samningar verður flugfélagið aðal styrktaraðili þýska liðsins og kemur þá með talsvert fjármagn inn sem eykur möguleika Kiel-liðsins að verða enn samkeppnisfærara en það er nú á leikmanna markaðnum.

Hansen er sagður vera efstur á óskalista forráðamanna Kiel ef Karabatic gengur til liðs við PSG en franska liðið mun vera tilbúið að kaupa upp samning hans hjá Barcelona og greiða spænsku meisturunum uppsett verð sem er sagt vera tvær milljónir evra, jafnvirði nærri 300 milljóna króna. 

Verið er að gæla við Hansen komi til Kiel strax í sumar. Hann er fremsti handknattleiksmaður Dana um þessar mundir. 

Aron Pálmarsson fer frá Kiel eftir leiktíðina til ungverska meistaraliðsins. Veszprém og þá hefur Rasmus Lauge samið við Flensburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert