Nágrannar mætast í Minsk

Erfiðlega hefur gengið að koma viðureignum Rússa og Úkraínumanna í …
Erfiðlega hefur gengið að koma viðureignum Rússa og Úkraínumanna í undankeppni EM í handbolta karla. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Erfiðlega hefur gengið að koma á viðureignum Rússa og Úkraínumanna í undankeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik karla vegna þess að samskipti ríkjanna á öllum sviðum eru í lágmarki vegna stríðs þeirra í milli. Nú er svo komið að Handknattleikssamband Evrópu hefur ákveðið að báðar viðureignir þeirra í undankeppni EM 2016 fari fram í Minsk í Hvíta-Rússlandi. 

Fyrri leikurinn verður 10. júní og hinn síðari daginn eftir. Fyrri leikurinn átti að fara fram um síðustu mánaðarmót í Rússlandi en var slegið á frest.

Leikmenn landsliðs Úkraínu fá lítinn tíma til þess að slaka á eftir leikina í Minsk því tveimur dögum eftir síðari viðureignina eiga þeir að vera mættir til Ungverjalands til þess að keppa við landslið heimamanna. Þremur dögum eftir leikinn í Minsk mæta Rússar landsliði Portúgals í Rússlandi. 

Rússar og Úkraínumenn eru í riðli með Ungverjum og Portúgölum í undankeppninni. Rússar eru með tvö stig eftir þrjá leiki en Úkraínumenn eru án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert