Sigurbergur og félagar eiga enn von

Sigurbergur Sveinsson.
Sigurbergur Sveinsson. mbl.is/Ómar

Það var mikil spenna í leik Erlingen og Füsche Berlin í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld, en með tapi voru Sigurbergur Sveinsson og félagar í Erlangen fallnir úr deildinni.

Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12, en jafnræði var með liðunum stærstan hluta leiksins. Þegar mínúta var eftir var staðan enn jöfn, nú 27:27. Þegar hálf mínúta var eftir komst Erlingen yfir, en missti í kjölfarið mann af velli og kláraði því leikinn einum færri. Berlínarrefirnir undir stjórn Dags Sigurðssonar jöfnuðu leikinn í næstu sókn og þar við sat, lokatölur 28:28. 

Sigurbergur skoraði eitt mark fyrir Erlingen, en hann mun yfirgefa félagið í sumar og ganga til liðs við Team Tvis Holestebro í Danmörku. Erlingen er nú með 23 stig og á enn möguleika á að halda sér uppi í lokaumferðinni.

Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað hjá Gummersbach þegar liðið lagði Lübbecke, 29:27. Liðið var þremur mörkum undir í hálfleik, 16:13, en sneri taflinu við eftir hlé og komst um leið upp í áttunda sæti deildarinnar. Magdeburg undir stjórn Geirs Sveinssonar tapaði svo stórt fyrir Minden á útivelli, 35:26.

Lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar hjá Aue í þýsku 2. deildinni unnu útisigur á Hamm, 25:23, og hafði í kjölfarið sætaskipti við liðið. Sigtryggur Daði Rúnarsson, sonur Rúnars, skoraði tvö marka Aue í leiknum og þeir Árni Þór Sigtryggsson, bróðir Rúnars, og Hörður Fannar Sigþórsson eitt. Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað, frekar en Sveinbjörn Pétursson sem ver mark liðsins og því ekki við því að búast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert