Barcelona er liðin tíð

Steffen Weinhold skorar eitt marka sinna fyrir Kiel gegn Veszprém …
Steffen Weinhold skorar eitt marka sinna fyrir Kiel gegn Veszprém í undanúrslitaleiknum í dag. AFP

„Barcelona tilheyrir fortíðinni í mínu lífi. Ég átti það góð ár en þau eru löngu liðin. Nú einbeiti ég mér að því að þjálfa Veszprém," sagði Carlos Ortega, þjálfari ungverska meistaraliðsins Veszprém sem leikur til úrslita við Barcelona í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á morgun.

Ástæða ummæla Ortega var fyrirspurn á blaðamannafundi eftir sigurleikinn á Kiel í undanúrslitum í dag hvernig honum liði á mæta Barcelona í úrslitaleik á morgun en Ortega lék á annan áratug með Barcelona. Sem leikmaður Barcelona, og síðar þjálfari, á sínum tíma vann Ortega 14 titla í heimalandi sínu auk þess að vera sex sinnum í sigurliði Barcelona í Meistaradeild Evrópu. „Ég er heill í mínu starfi og mun nota allan þann tíma sem ég hef fram að leik til þess að búa lið mitt sem best undir leikinn. Að andstæðingurinn verði Barcelona hefur engin áhrif á mig," sagði Ortega ennfremur.

Laszlo Nágy, leikmaður Vezsprém, lék með Barcelona í á annan áratug og fékk m.a. tvöfalt ríkisfang, spænskt auk síns ungverska á þeim árum sem hann lék með Barcelona en hann kom til félagsins aðeins 17 ára gamall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert