Fer í nudd og kveiki á sjónvarpinu

Guðjón Valur Sigurðsson leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu á …
Guðjón Valur Sigurðsson leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu á morgu. Skapti Hallgrímsson

„Ég er fyrst og fremst glaður eftir þennan sigur,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður Barcelona, þegar mbl.is hitti hann stuttlega að máli eftir að Barcelona tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik með sigri á Vive Kielce í undanúrslitaleik í Lanxess-Arena í Köln, 33:28.

„Þetta var hrikalega erfiður leikur gegn afar vel skipulögðu liði Kielce. Þeir spiluðu vörnina framarlega eins og við reiknuðum með. Það er bara hrikalega erfitt að leika við þá enda segir árangur þeirra til þessa í keppninni allt sem segja þarf í þeim efnum,“ sagði Guðjón Valur en þetta var aðeins annað tap Vive Kielce í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

„Þeir jafna metin í þegar kemur í fram í síðari hálfleik en við náðum þessu á lokasprettinum sem var frábært,“ sagði Guðjón Valur og bætti við. „Saric var frábær í markinu eftir að hann kom inn á auk þess sem vörnin var góð og varði meðal annars þrjú eða fjögur skot.“

Guðjón Valur sagði að nú taki við slökun og undirbúningur fyrir úrslitaleikinn á morgun en síðar í dag kemur í ljós hvort Barcelona leikur við Kiel eða Veszprém í úrslitaleiknum á morgun.  „Nú förum við út á hótel í nudd og mat og kveikjum á sjónvarpinu og sjáum þar hvort liðið við leikum við á morgun,“ sagði Guðjón Valur og glotti við tönn þegar hann var spurður hvort hann vildi frekar mæta öðru liðinu fremur en hinu. „Mér er alveg sama, ég verð að segja það enda fæ ég engu um það breytt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert