Guðjón með Barcelona í úrslit

Guðjón Valur Sigurðsson er kominn í úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu …
Guðjón Valur Sigurðsson er kominn í úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu með Barcelona. Skapti Hallgrímsson

Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar í Barcelona leika til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á morgun. Það varð ljóst eftir að þeir unnu pólsku meistarana í Vive Kielce, 33:28, í fyrri undanúrslitaleik dagsins í Lanxess-Arena í Köln fyrir stundu.

Guðjón Valur skoraði fimm mörk í leiknum úr sjö skotum og átti auk þess tvær stoðsendingar.

Barcelona var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Liðið hafði tveggja marka forskot í hálfleik, 16:14, og komst í 19:14, snemma í síðari hálfleik. Þá tókst Kielce-liðinu að komast inn í leikinn og jafna metin, 20:20. Áfram var jafnt á metunum en í stöðunni, 22:22, eftir rúmlega 40 mínútna leik kom Katarbúinn, Danijel Stanic, í mark Barcelona. Hann skellti í lás og átti stærsta þátt í að brjóta leikmenn Kielce á bak aftur. 

Markvarslan skildi liðin að mestu að í leiknum þegar á leið auk þess sem gæðin skinu í gegn hjá Barcelona-liðinu á lokasprettinum þegar mest á reyndi.

Nikola Karabatic var markahæstur hjá Barcelona með átta mörk. Kiril Lazarov skoraði sjö mörk. Karol Bielecki skoraði sjö fyrir Kielce og var markahæstur.

Barcelona mætir annað hvort Kiel eða Veszprém í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á morgun. Klukkan 16 mætast Kiel og Veszprém í hinni viðureign undanúrslitanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert