Guðjón Valur fyrstur með fjórum liðum

Leikmenn Barcelona fagna sigri í spænsku deildinni um síðustu helgi. …
Leikmenn Barcelona fagna sigri í spænsku deildinni um síðustu helgi. Guðjón Valur Sigurðsson leikur stórt hlutverk hjá liðinu. Ljósmynd/twitter

Núverandi keppnisfyrirkomulag, það er að leika undanúslit á laugardegi og úrslitaleiki á sunnudegi, var tekið upp í Meistaradeild Evrópu vorið 2010. Áður léku liðin tvö sem komust í úrslit tvo leiki, heima og að heima til þess að knýja fram sigurvegara.

Frá 2010 hefur Alfreð Gíslason farið með Kiel í úrslitahelgina í fimm skipti af sex og tvisvar unnið, 2010 og 2012, unnið silfur 2014 og einu sinni hafnað í fjórða sæti 2013. Aron Pálmarsson hefur verið í liði Kiel öll árin en hann var í sigurliði Kiel á sínu fyrsta keppnistímabili með liðinu, leiktíðina 2009/2010 og svo aftur 2012.

Aron var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar fyrir ári síðan. Hann yfirgefur Kiel í sumar og gengur til liðs við Veszprém, liðið sem Kiel mætir í undanúrslitum í dag.

Aðrir íslenskir þjálfara sem hafa komist í úrslitahelgina með sín lið eru Guðmundur Þórður Guðmundsson 2011 með Rhein-Neckar Löwen og Dagur Sigurðsson með Füchse Berlín árið eftir. Báðir höfnuðu í fjórða sæti.

Guðjón Valur Sigurðsson er fyrsti handknattleiksmaðurinn til þess að taka þátt í úrslitahelginni með fjórum félagsliðum. Guðjón Valur var með Rhein-Neckar Löwen 2011, AG Köbenhavn 2012, Kiel 2013 og 2014 og Barcelona að þessu sinni. Hann hefur aldrei verið í sigurliði keppninnar.

Liðsfélagi Guðjóns Vals, Hvít-Rússinn Shiarhei Rutenka, hefur hinsvegar fimm sinnum verið í sigurliði Meistaradeildarinnar, með Celje Lasko 2004, Ciudad Real 2006, 2008 og 2009 og Barcelona 2011. Rutenka er meiddur í baki og óvíst hversu mikið hann getur tekið þátt í leikjum helgarinnar en hann er að a.m.k. í hópnum hjá Barcelona að þessu sinni.

Engu liði hefur tekist að vinna Meistaradeildina tvö ár í röð eftir að núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp. Sigurlið síðasta árs, Flensburg, féll út út í 16-liða úrslitum fyrir Kiel síðla í vetur.

Aðeins eitt þýskt lið tekur þátt í undanúrslitum Meistaradeildar í ár en þau hafa alltaf verið tvö af þeim fjórum sem komist hafa alla leið í úrslitahelgina í Köln. Liðin fjögur sem nú eru í undanúrslitum unnu öll riðla sína í fyrsta hluta keppninnar á þessari leiktíð.

Aðeins einn þjálfari hefur unnið Meistaradeild Evrópu með tveimur félagsliðum, það er Alfreð Gíslason.

Alfreð hefur aldrei tapað fyrir liði í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu sem þjálfað er af Spánverja. Allir þjálfara liðanna þriggja sem nú eru í undanúrslitum Meistaradeildar eru þjálfuð af Spánverjum.

Leikið er í Lanxess-Arena í Köln sem tekur 19.750 áhorfendur í sæti. Síðustu miðarnir á úrslitahelgina seldust í nóvember en Handknattleikssamband Evrópu setti miðana út í skömmtum til sölu frá júní í fyrra fram í nóvember. Að vísu voru teknir frá 2000 miðar sem skipt var jafnt niður á liðin fjögur sem komust í undanúrslit. Þeir miðar fóru í sölu fyrir skömmu og seldust eins og heitar lummur.

Miðasala á úrslitahelgina að ári hefst í dag. Í fyrra seldust um 7.000 aðgöngumiðar ári fyrirfram og ljóst að margir sem til Kölnar koma mæta ár eftir ár.

Áhugi fyrir leikjum keppninnar hefur einnig vaxið ár frá ári með þeirra sem reka sjónvarpsstöðvar en að þessu sinni eru leikir úrslitahelgarinnar sendir út til 120 landa og hafa aldrei verið fleiri.

Aðeins einn þjálfari liðanna fjögurra sem nú eru í undanúrslitum hefur unnið keppnina bæði sem leikmaður og þjálfari. Það er Talant Dujshebaev. Hann var leikmaður Teka Santander frá Spáni sem vann Meistaradeildina  1994. Dujshebaev vann deildina þrisvar sinnum sem þjálfari Ciudad Real, 2006, 2008 og 2009. Carlos Ortega, þjálfari Veszprém, getur fetað í fótspor Dujshebaev um helgina ef ungverska liðið vinnu deildina í fyrsta sinn. Ortega var sex sinnum í sigurliði Meistaradeildar Evrópu sem leikmaður Barcelona.

Barcelona hefur sjö sinnum unnið Meistaradeild Evrópu, 1996-2000, 2005 og 2011. Kiel hefur unnið þrisvar 2007, 2010 og 2012. Veszprém og Vive Kielce hafa hvorki unnið keppnina né leikið til úrslita.

Leikmenn liðanna fjögurra eru af 19 þjóðernum, þar af eru þrír leikmenn ekki með evrópskt ríkisfang.

Vive Kielce frá Póllandi hefur náð bestum árangri í Meistaradeildinni á þessari leiktíð. Liðið hefur unnið 13 leiki en aðeins tapað einum.

Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Barcelona hafa skorað flest mörk allra í Meistaradeildinni á þessari leiktíð, 466. Þeir hafa einnig fengið á sig fæst mörk, 357. Kiel hefur skorað næst flest mörk í keppninni, 445. Kiel hefur einnig fengið á sig næst fæst mörk, 362.

Fyrri undanúrslitaleikur dagsins verður á milli Barcelona og Vive Kielce frá Póllandi en í þeim síðari mætast THW Kiel og MVM Veszprém. Fyrri viðureignin hefst kl. 13.15 en sú síðari kl. 16.

Sigurlið dagsins mætast í úrslitaleik á morgun kl. 16. Tapliðin leika um bronsið og sá leikur verður flautaður á kl. 13.15.

Alfreð Gíslason og Aron Pálmarsson verða í eldlínunni í dag …
Alfreð Gíslason og Aron Pálmarsson verða í eldlínunni í dag með Kiel gegn Veszprém í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert