Í leit að réttu blöndunni

Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, hefur verk að …
Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, hefur verk að vinna fyrir umspilsleikina mikilvægu. Ómar Óskarsson

Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, var frekar ósáttur við sóknarleik liðsins eftir sjö marka tap þess gegn Póllandi í vináttuleik ytra, 25:18.

„Við spiluðum á flestum leikmönnunum og vorum að reyna að finna réttu blönduna. Það vantar Ramune [Pekarskyte] sem kemur inn eftir helgina og svo vantar Karen [Knútsdóttur] líka svo við höfum verið að reyna að finna taktinn sóknarlega. Það er það helsta sem þarf að bæta, við vorum í vandræðum þar í dag og að koma skotum á markið,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is eftir leik. Hann sagði vörn og markvörslu hafa verið með ágætum lengst af.

„Vörn og markvarsla var í fínu lagi stóran hluta leiksins þar sem Florentina [Stanciu] og Guðrún [Ósk Maríasdóttir] vörðu átján skot, þar af þrjú víti, svo það var gott en við erum helst í vandræðum í sókninni. Það hjálpar vonandi að fá Ramune inn aftur en það eru fleiri sem þurfa að stíga upp og skila betri frammistöðu,“ sagði Ágúst, sem var ánægður með að liðið gafst ekki upp. Það var tólf mörkum undir þegar tíu mínútur voru eftir en minnkaði muninn á ný niður í sjö mörk áður en yfir lauk.

Hópurinn vonandi þéttist fyrir umspilsleikina

Þetta var annar leikurinn á jafnmörgum dögum ytra, en sá fyrri tapaðist einnig, 31:26. Framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir við Svartfjallaland í umspili fyrir sæti á EM en Ágúst segir að þessi tvö töp í síðustu tveimur leikjunum fyrir þá muni ekki leggjast þungt á sinni liðsins.

„Ég held að það verði allt í góðu, auðvitað hefði verið gott að ná að vinna en við vorum að spila við gríðarlega sterkt lið eins og Svartfjallaland er líka og það við erfiðar aðstæður og án margra lykilmanna. En hópurinn þéttist vonandi fyrir umspilsleikina,“ sagði Ágúst sem segir mikilvægt að nýta þann tíma sem er til stefnu vel.

„Þetta var góð reynsla fyrir fullt af leikmönnum, en þetta verður ennþá erfiðara í Svartfjallalandi fyrir framan sex, sjö þúsund áhorfendur. En þetta voru góðir undirbúningsleikir og gott að fá ákveðna hluti fram núna, svo það er okkar þjálfaranna að vinna úr upplýsingunum sem við fengum úr þessum tveimur leikjum,“ sagði Ágúst Jóhannsson í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert