Áfall að missa Dunvjak út af

Rasmus Lauge, leikmaður Kiel, sækir að vörn Kielce í leiknum …
Rasmus Lauge, leikmaður Kiel, sækir að vörn Kielce í leiknum í Lanxess-Arena í dag. AFP

„Vissulega er það mikil vonbrigði að tapa báðum leikjunum en því miður þá kemur það í ljós að við erum ekki með fullmannað lið í öllum stöðum. Það kemur niður á okkur,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, í samtali við mbl.is eftir að lið hans tapaði fyrir pólska liðinu Vive Kielce, 28:26, í leiknum um bronsið í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í Lanxess-Aren í Köln í dag.

„Í dag lékum við þó betur en í gær í undanúrslitaleiknum. Það hafði mikil áhrif á leik okkar að missa Domagoj Dunvjak út með rautt spjald eftir tæpar 40 mínútur. Hann var kominn með tvo brottrekstra eftir 17 mínútur sem var alveg fáránlegt. Sem dæmi má nefna að Dunvjak fékk tvær mínútur fyrir brot sem ekkert var dæmt á hinum megin vallarins. Ég er mjög óánægður með það og því miður þá virðist dómarastéttin vera hreinlega sér félagsskapur,“ sagði Alfreð var afar óánægður með hversu oft leikmenn Vive Kielce fengu svokallaðan „tvöfaldan séns“. Hafi þér þótt mikið um það í gær þá gerðist það oftar í dag,“ sagði Alfreð.

Alfreð segir að sóknarleikur Kiel hafi verið betri í dag en í síðari hálfleik í gær þegar leikmenn hans fóru oft afar illa að ráði sínu í opnum færum.  Í dag var hann betri, það vantaði ekki en dugði ekki til,“ sagði Alfreð og bætti við að þegar lið hefur tapað undanúrslitaleik þá geti oft verið erfiðara að rífa það upp í leik daginn eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert