Guðjón Valur Evrópumeistari

Nikola Karabatic með Evrópumeistarabikarinn á lofti. Til vinstri sést glitta …
Nikola Karabatic með Evrópumeistarabikarinn á lofti. Til vinstri sést glitta í Guðjón Val. AFP

Guðjón Valur Sigurðsson varð rétt áðan Evrópumeistari í handknattleik með Barcelona þegar liðið vann ungverska meistaraliðið Veszprém, 28:23, í úrslitaleik í Lanxess-Arena í Köln. Guðjón Valur er þar með Evrópumeistari í handknattleik í fyrsta sinn á ferlinum en Barcelona vann titilinn í áttunda sinn og er um leið sigursælasta lið keppninnar frá upphafi.

Guðjón Valur átti framúrskarandi leik og skoraði sex mörk úr sjö skottilraunum. Hann var markahæsti leikmaður liðsins ásamt Frakkanum Nikola Karabatic. Guðjón Valur lék allan leikinn frá upphafi til enda eins og hann gerði einnig í undanúrslitaleiknum í gær.

Guðjón Valur er fjórði íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að verða í sigurliði í Evrópukeppni meistaliða, Meistaradeildinni. Hinir eru Ólafur Stefánsson með Magdeburg og þrisvar með Ciudad Real, Aron Pálmarsson sem vann með Kiel 2010 og 2012, og Ólafur Gústafsson með Flensburg á síðasta ári. Þess utan hefur Alfreð Gíslason í þrígang stýrt félagsliði til sigurs í keppninni, Kiel tvisvar og Magdeburg einu sinni.

Barcelona hafði yfirhöndina í leiknum í dag frá upphafi til enda. Forskot Barcelona að loknum fyrri hálfleik var 14:10. Liðið lék frábæran varnarleik sem ungverska liðið náði aldrei að brjóta á bak aftur. „Við erum með svolítið marga leikmenn sem eru góðir í vörn og síðan erum við með Saric, gamla karlinn í markinu.  Hann er sá eini sem eldri en ég í þessu liði," sagði Guðjón Valur og glotti við tönn í samtali við mbl.is eftir leikinn í dag. 

Forskot Barcelona var minnst tvö mörk eftir miðjan síðari hálfleikinn, 19:17, en tvö mörk Guðjón Vals á þeim tíma brutu ísinn, ruddu brautina fyrir Barcelona á þeim tíma í leiknum. Eftir það var ekki litið um öxl og sigurinn var afar öruggur.

Síðustu hálfu mínútu leiksins stóðu allir áhorfendur upp, nærri 20 þúsund, og hylltu Evrópumeistara Barcelona og leikmenn Veszprém fóru ekki í síðustu sókn sína í virðingarskyni við meistarana sem voru svo sannarlega vel að sigrinum komnir.

Guðjón Valur Sigurðsson varð Evrópumeistari í handknattleik með Barcelona í …
Guðjón Valur Sigurðsson varð Evrópumeistari í handknattleik með Barcelona í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert