Lengi stefnt á þennan titil

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar með samherjum sínum í Barcelona eftir …
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar með samherjum sínum í Barcelona eftir sigurinn í Meistaradeild Evrópu í dag. AFP

„Mér líður bara vel og eins og oft áður í mínu lífi,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson í samtali við mbl.is í Köln í dag eftir að hann varð Evrópumeistari í handknattleik með liði sínu, Barcelona. Barcelona vann Veszprém frá Ungverjalandi, 28:23, í úrslitaleik í Köln. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðjón Valur verður Evrópumeistari en hann hefur fjórum sinnum áður komist a.m.k. í undanúrslit keppninnar og fékk m.a. silfurverðlaun með Kiel fyrir ári síðan.

„Þessi sigur er nokkuð sem ég hef stefnt að lengi og er tvímælalaust einn af hápunktunum á mínum íþróttaferli. Ég er fyrst og fremst glaður yfir að það tókst,“ sagði Guðjón Valur sem vildi ekki gera upp á milli þeirra hápunkta og segja að sigurinn í dag sé sá stærsti. 

„Ég vil ekki flokka allt það niður sem ég hef gert. Ég hef vissulega stefnt lengi að þessum áfanga og hef af þeim sökum lagt mikið á mig til þess að það gæti orðið að veruleika. Fyrst og fremst er ég þakklátur yfir að þessi áfangi sé í höfn og að hafa fengið tækifæri til þess að vera í þessu frábæra liði með einstökum samherjum. Um leið er ég þakklátur öllum þeim sem næst mér standa fyrir að hafa þolað mig og gefið mér þann tíma sem ég hef þurft til þess að ná þessu markmiði. Mínir nánustu hafa leyft mér að vera skrítinn í friði til þess að hægt sé að ná árangri,“ sagði Guðjón Valur.

Guðjón Valur sagðist ekki vilja fullyrða að Barcelona væri besta félagslið sem hann hafi leikið með á ferlinum. „Það er með félagsliðin eins og samherjana og verðlaunin sem maður hefur unnið. Ég vil ekki gera upp á milli þeirra. 

„Vissulega er Barcelona með frábært lið en ég vil ekki móðga neinn. Kiel-liðið sem ég var í var einnig frábært, sömu sögu má segja um AG Köbenhavn.  Mér þykir óendanlega vænt um síðasta mánuðinn minn hjá Kiel í fyrra þegar við unnum þýska meistaratitilinn mörgum að óvörum og síðan töpuðum við úrslitaleiknum í Meistaradeildinni sem var súrt.

En í dag er ég glaður og það var frábært og forréttindi að fá að taka þátt í þessu,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, Evrópumeistari í handknattleik karla og leikmaður Barcelona.

Nánar verður rætt við Guðjón Val Sigurðsson í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Guðjón Valur með verðlaunapeninginn um hálsinn.
Guðjón Valur með verðlaunapeninginn um hálsinn. mbl.is/iben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert