Sigursælasta liðið leikur til úrslita

Nikola Karabatic leikur stórt hlutverk hjá Barcelona. Hann getur orðið …
Nikola Karabatic leikur stórt hlutverk hjá Barcelona. Hann getur orðið Evrópumeistari með liðinu í dag. Karabatic vann Meistaradeildina með Montpellier 2003 og Kiel 2007. AFP

Úrslitaleikur Barcelona og Veszprém í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag verður fyrsta viðureign liða frá Spáni og Ungverjalandi í úrslitum þessarar keppni sem fyrst var leikið til úrslita í 1996, fimm árum eftir að Handknattleikssamband Evrópu var stofnað, en það gerði breytingar á keppninni sem áður var kölluð Evrópukeppni meistaraliða og var undir hatti Alþjóða handknattleikssambandsins lengi vel.

Barcelona er sigursælasta lið Meistaradeildarinnar. Liðið hefur unnið keppnina sjö sinnum, þar af fimm fyrstu árin frá 1996. Síðast vann Barcelona Meistaradeildina vorið 2011 eftir a hafa lagt Ciudad Real í alspænskum úrslitaleik í Köln, 27:24.

Nokkrir leikmenn Barcelona 2011 leika enn með með liðinu og má þar nefna danska línumanninn Jesper Nöddesbo, Hvít-Rússann Siarhei Rutenka, markvörðinn Danijel Saric og Frakkann Cedric Sorhaindo. Pascual Xavi þjálfari var þá eins og nú við stjórnvölin.

Veszprém hefur aðeins einu sinni leikið til úrslita í Meistaradeild Evrópu, gegn SC Magdeburg sem þá var undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Magdeburg hafði betur í tveggja leikja rimmu en þá var ekki byrjað að keppa með því fyrirkomulagi sem verið hefur á lokaleikjunum, þ.e. að leika undanúrslitaleiki á laugardegi og úrslitaleikinn á daginn. Það fyrirkomulag, svokallað „final four" var tekið upp 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert