Þolinmæðisvinna í Tel Aviv

Aron Kristjánsson og hans menn ætla sér sæti í lokakeppni …
Aron Kristjánsson og hans menn ætla sér sæti í lokakeppni EM. mbl.is/Golli

„Það getur tekið sinn tíma að brjóta ísraelska landsliðið á bak aftur á heimavelli þess. Ég reikna ekki með að það gerist á fyrstu tíu mínútunum,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, en hann var þá nýkominn af fyrstu æfingu íslenska landsliðsins í Tel Aviv. Á morgun mætir íslenska landsliðið því ísraelska í undankeppni Evrópumeistaramótsins. Aron segir ljóst að fram undan sé erfiðari leikur en þegar liðin mættust í Laugardalshöll í lok október, en þá vann íslenska liðið með 17 marka mun, 36:19.

„Ísraelsmenn leika mikið fastar á heimavelli en á útivelli og fá að komast upp með það. Við verðum að taka leikinn mjög alvarlega og fara inn í hann af fullum krafti,“ segir Aron og minnir á að leikurinn á morgun sé aðeins fyrri úrslitaleikur íslenska landsliðsins af tveimur næstu daga, en á sunnudaginn tekur landsliðið á móti Svartfellingum í Laugardalshöll.

„Það er mikilvægt að við náum að leika tvo góða leiki til þess að ljúka undankeppninni með sæmd og tryggja okkur um leið sæti í lokakeppni EM í Póllandi í byrjun næsta árs,“ sagði Aron, en íslenska landsliðið er í baráttu við Svartfellinga og Serba um sætin tvö í 4. riðli undankeppninnar sem tryggja farseðilinn í lokakeppni EM.

Nánar er rætt við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert