EM sætið er alls ekki í höfn

Aron Kristjánsson og lærisveinar í íslenska landsliðinu eru ekki öruggir …
Aron Kristjánsson og lærisveinar í íslenska landsliðinu eru ekki öruggir inn á EM í handbolta eins og fullyrt hefur verið. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska landsliðið í handknattleik karla tryggði sér ekki sæti í lokakeppni Evrópumeistaramótsins með sigrinum á Ísrael í Tel Aviv í gær eins og fullyrt hefur verið. Vissulega kemst eitt lið sem hafnar í þriðja sæti í einum af undanriðlunum sjö áfram í lokakeppnina en hvaða lið það verður liggur ekki ljóst fyrir fyrr en að undankeppninni verður lokið á sunnudagskvöldið.

Þegar riðlakeppninni verður lokið verður dæmið gert upp. Þá verða úrslit leikja gegn neðsta liði hvers riðils strikuð út og úrslit leikja liðanna sem hafna í þriðja sæti gegn liðunum í fyrsta og öðru sæti gilda og talin saman. Þetta er hreint og klárt samkvæmt reglugerð keppninnar sem mbl.is hefur undir höndum.

Vissulega stendur íslenska landsliðið vel að vígi ef svo fer að það tapar fyrir Svartfellingum á sunnudaginn eftir að hafa fengið þrjú stig í innbyrðis leikjum við Serba. Hinsvegar er alltof snemmt að fullyrða enn að hvernig sem fer í Laugardalshöllinni á sunnudaginn, í leik Íslands og Svartfjallalands, þá sé íslenska landsliðið nú þegar öruggt um sæti í lokakeppninni. 

Flautað verður til leiks í viðureign Íslendinga og Svartfellinga í Laugardalshöllinni klukkan 17 á sunnudaginn.

Ástæða þess að nú er leikið um 15 sæti í lokakeppni EM í sjö riðlum en ekki 14 sæti eins fyrr er sú að frá og með yfirstandandi undankeppni þá taka ríkjandi Evrópumeistarar þátt í undankeppninni. Aðeins gestgjafar keppninnar, í þessu tilfelli Pólverjar, eru öruggir um sæti í lokakeppninni þegar undankeppnin hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert