Stephen Nielsen genginn í raðir ÍBV

Stephen Nielsen ver mark Eyjamanna á næstu leiktíð.
Stephen Nielsen ver mark Eyjamanna á næstu leiktíð. mbl.is/Árni

Markvörðurinn Stephen Nielsen skrifaði undir tveggja ára samning við ÍBV í handbolta í dag. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi nú í hádeginu. Nielsen lék með Val á síðasta tímabili og hefur einnig leikið með Fram hér á landi og hefur þótt einn besti markvörður Olís-deildarinnar. Eyjamenn verða því með geysisterkt markvarðarpar á næsta tímabili en Kolbeinn Arnarson, sem hefur varið mark ÍBV undanfarin ár, verður áfram í herbúðum þeirra.

„Þetta var það sem hentaði fjölskyldunni og mér best. Einnig er ÍBV með mjög sterkan hóp og þetta var því besta lausnin fyrir alla, vonandi líka fyrir Eyjamenn,“ sagði Stephen Nielsen í samtali við mbl.is eftir að hann skrifaði undir samning við ÍBV. Nielsen og konan hans eiga hálfs árs gamalt barn og fjölskylduumhverfið í Eyjunni fögru heillar.

„Ég var búinn að eiga frábæran tíma í Val en fannst þetta það besta í stöðunni.“ Nielsen hlakkar til að vinna með Kolbeini Arnarsyni markverði. „Við munum pottþétt skipta þessu eitthvað á milli okkar. Þetta verður góð samkeppni og samvinna og ég hlakka bara til að spila með svona góðum markverði. Það er gott að hafa tvo góða markverði.“

Hann vonast til að fá að upplifa Eyjastemninguna sem ríkt hefur í handboltanum undanfarin tvö ár. „Þetta er geðveikt stemning og stuðningsmennirnir eru frábærir og það er spennandi.“ Nielsen er einnig spenntur fyrir því að flytja til Eyja. „Sem Dani er umhverfið þar ekki eitthvað sem maður á að venjast.“

Markmiðið er að vinna titla með ÍBV. „Ég vona það. Deildin verður hins vegar erfið næsta aftur, eins og hún var síðasta vetur,“ sagði Nielsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert