Ætlum að spila fast á þær

Ágúst Jóhannsso.
Ágúst Jóhannsso. Ernir Eyjólfsson

Ágúst Jóhannsson landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik segir lítið mál að undirbúa liðið andlega fyrir hið erfiða verkefni sem framundan er gegn Svartfjallalandi.

Ísland mætir liðinu í annað skipti í síðari umspilsleik liðsins um laust sæti á HM í Danmörku en fyrri leikurinn ytra fór 28:19 sem var þegar þegar öllu er á botninn hvolft allt of stórt tap.

„Það er ekkert mál. Við eigum ennþá möguleika og á meðan hann er til staðar þá undirbúum við okkur vel og komum af fullum krafti í þetta. Númer 1, 2 og 3 þá ætlum við að ná jafnari spilamennsku. Sigur væri frábær úrslit,“ sagði Ágúst við mbl.is.

Ágúst segir íslenska liðið hafa misst agann í sóknarleiknum í síðari hálfleiknum í fyrri leiknum eftir frábæra byrjun og að liðið hafi tekið skot úr allt of erfiðum stöðum sem skilaði Svartfjallalandi mörkum hraðauppshlaupum. Það á að koma í veg fyrir það í dag.

„Við þurfum að byrja vel og að byrja að spila fast á þær en þær hafa pálmann í höndunum og ætla væntanlega að klára þetta í fyrri hálfleik en við sjáum til. Við þurfum að leggja allt í þetta og ég vona að ég sjái baráttuglatt íslenskt landslið. Vonandi fáum við góðan stuðning því það er aldrei að vita nema við fáum góðan leik,“ sagði Ágúst.

Íslenska liðið hefur verið óheppið með meiðsli undanfarin misseri en Karen Knútsdóttir hefur ekkert tekið þátt í þessu verkefni með landsliðinu og nú síðast varð Birna Berg Haraldsdóttir fyrir áfalli þegar hún sleit krossband.

„Það er er ekkert nýtt. Það hefur vantað lykilleikmenn meira og minna í tvö ár hjá okkur. Núna síðust misstum við Birnu sem er mikið áfall fyrir liðið og ekki síst hana sjálfa þar sem hún hefur verið að vinna vel í sínum málum og var í góðu standi og alltaf að fá stærra og stærra hlutverk,“ sagði Ágúst.

Leikurinn hefst kl. 14.10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert